Algjört skilningsleysi mætti Freyju í flugvélinni: Fraus og beið eftir að maðurinn kláraði

Freyja Steingrímsdóttir, stjórnmálafræðingur og aðstoðarkona Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, opnar sig um ofbeldi sem hún varð fyrir í flugvél fyrir nokkrum árum.

Fjölmargar konur hafa stigið fram á Twitter að undanförnu og sagt frá reynslu sinni af ofbeldi karlmanna í þeirra garð. Freyja er í þeim hópi og er óhætt að segja að færsla hennar hafi vakið mikla athygli. Það sem vekur sérstaka athygli er það skilningsleysi sem hún mætti hjá starfsfólki um borð í vélinni.

„Í Bandaríkjaflugi fyrir nokkrum árum vaknaði ég í gluggasæti við að maðurinn í miðjusætinu var að rúnka sér "á mig." Fraus, beið eftir að hann kláraði og þurfti svo að biðja hann um að færa sig til að komast burt. Bað flugþjón um nýtt sæti. Hann sagði að allt væri fullt,“ segir Freyja.

Hún segir að flugþjónninn hafi orðið pirraður og skipað henni að setjast aftur í sætið sitt þegar hún útskýrði stöðuna grátandi. „Ég tók með mér nokkra kodda, settist aftur og byggði virki með þeim til að halda (ímyndaðri) fjarlægð næstu þrjár klst af fluginu.“

Freyja segir að það hafi komið flatt upp á hana að frjósa og verða lítil í sér. „Skammaðist mín fyrir þegja bara, en hella mér ekki yfir hann eða vera með uppsteyt við flugþjóninn eins ég hefði búist við af sjálfri mér. Samt svo miklu "heppnari" en meirihluti vinkvenna minna.“