Albert ekki sáttur eftir ferð í Costco: „Er þetta boðlegt?“

Koma Costco hingað til lands hefur breytt ýmsu í viðskiptavenjum Íslendinga enda hægt að fá góðar vörur í miklu magni á tiltölulega hagstæðu verði.

Umræður hafa skapast í Facebook-hópnum Costco gleði eftir að Albert nokkur sagði farir sínar ekki sléttar eftir heimsókn í Costco á laugardag.

„Ekki ánægður með Costco núna,“ segir Albert en hann verslaði fyrir rúmar 35 þúsund krónur síðastliðinn laugardag. Eitthvað varð þó til þess að upphæðin var tekin fjórum sinnum af kortinu hans, samtals 140 þúsund krónur.

Albert kveðst hafa farið aftur í Costco síðar á laugardaginn þegar hann tók eftir þessu.

„Þeir sögðust ekkert geta gert þetta væri bilun hjá Borgun ég yrði að snúa mér að þeim eftir helgi,“ segir hann. Ekki tók þó betra við þegar hann hafði samband við Borgun. Óhemju tíma tók að fá samband og þegar það loksins náðist var honum sagt að ábyrgðin lægi hjá Costco.

„Fór aftur í Costco, þeir neita að bakfæra, ég á að byrja bíða í 3 vinnudaga og sjá hvort það komi til baka, annars má ég koma aftur og þá verði mér borgað. Ég bý ekki á höfuðborgarsvæðinu. Mig munar um þessar rúmar 106.000 kr. Er þetta boðlegt?“

Flestir eru þeirrar skoðunar að þetta sé ekki boðlegt en ekki sé við Costco að sakast. Ekki sé óalgengt að þetta gerist hjá kortafyrirtækjunum og benda einhverjir á að hafa lent í svipuðum uppákomum. Ein kona segir til dæmis:

„Ég lenti í þessu í Bónus fyrir nokkrum vikum, kom alltaf að það væri ekki heimild á kortinu sem var ekki rétt og færslan fór í gegn fjórum sinnum. Síðan var þetta allt leiðrétt daginn eftir. Var kona á kassanum við hliðina á mér sem var að lenda í því sama. Þetta er bara villa hjá kortafyrirtækinu. Verslunin getur ekkert gert held ég.“