Ákall á miðjustjórn – Reykjavíkurmódel

Niðurstaðan úr nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV hefur birt er ákall á miðjuríkisstjórn sömu flokka og mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Samkvæmt þessari stóru könnun, sem gerð var 2.-30. júní, yrði fylgi Samfylkingar 13,7 prósent, Viðreisnar 6,7 prósent, Pírata 16,1 prósent og Framsóknar 17,5 prósent ef kosningar færu fram núna. Samtals 54 prósent.

Þetta eru flokkarnir sem mynda meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta miðjubandalag gæti því myndað ríkisstjórn miðað við framangreint fylgi samkvæmt Gallup. Kjósendur kalla eftir Reykjavíkurmódelinu miðað við þessa niðurstöðu.

Fylgi hinna samstæðu hópanna er svona: Vinstri framboðin fengju samtals 18,4 prósent; Vinstri græn 7,2 prósent, Flokkur fólksins 7,1 prósent og Sósíalistar 4,1 prósent.
Á hægri kantinum fengi Sjálfstæðisflokkur 22,8 prósent og Miðflokkurinn 4,6 prósent. Samtals 27,4 prósent.

Gallupkönnunin er skýr vísbending um að kjósendur kalla eftir miðjubandalagi í landsmálum og eru greinilega þreyttir á öfgaflokkum á hægri- og vinstriköntunum.

- Ólafur Arnarson