Áhyggjufullir foreldrar á Seltjarnarnesi: „Af þessu erum við nú að súpa seyðið“

Foreldrar barna og unglinga á Seltjarnarnesi og kennarar í Valhúsaskóla ítreka verulegar áhyggjur sínar af stöðu æskulýðs- og forvarnarstarfs unglinga á Seltjarnarnesi. Þau segja ástandið ólíðandi.

Fréttablaðið greinir frá.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem send var öllum bæjar- og varabæjarfulltrúum í bæjarstjórn Seltjarnarness í tölvupósti í mars síðastliðnum. Yfirlýsingin var opinberuð á Facebook í gærkvöldi í kjölfar fréttaflutnings af ungmennapartí í veislusal Gróttu sem lögreglan leysti upp sökum ungs aldurs gesta.

Í Facebook-færslu frá formanni foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness í hverfishópi, þar sem yfirlýsingin frá því í mars er opinberuð, segir að atvikið sé ekki það fyrsta. „Við höfum ítrekað heyrt af sambærilegum bjórkvöldum framhaldsskólanema í sölum Gróttu. Til að mynda var eitt slíkt haldið um síðustu helgi þar sem fyrrum Valhýsingar voru meðal gesta.“

Fulltrúar foreldrafélagsins hafi síðan í mars síðastliðnum barist fyrir því á öllum vígstöðvum að Grótta hætti að leigja sali sína fyrir viðburði þar sem drykkja barna undir lögaldri fer fram.

„Við höfum fundað bæði með núverandi og fyrrverandi bæjarstjóra, fræðslufulltrúa bæjarins og málið hefur verið tekið upp hjá skólanefnd bæjarins. Þetta er því ekki nýtt vandamál eða einstakt atvik,“ segir jafnframt í færslunni.

Foreldrar fagni því að fréttir af atvikinu hafi knúið forsvarsmenn Gróttu til aðgerða og ábyrgðar. Í gær sendi íþróttafélagið frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem fram kom meðal annars að leigjandi veislusalarins hafi brotið skilmála leigunnar með ungmennapartíinu.

„Við krefjumst þess að nú verði teknir upp breyttir og bættir starfshættir. Við munum halda áfram að standa vörð um ungmennin okkar og fylgja þessu máli eftir þar til gripið hefur verið til alvöru aðgerða,“ segir að lokum í færslunni.

Nánar má lesa um málið á vef Fréttablaðsins.