Ágústa lætur Stein­grím fá það ó­þvegið: „Eins og of­vaxinn strákur að rifna úr frekju“

„Ég legg til að Stein­grímur verði sér úti um barða­stóran sjó­hatt og góðan ára­bát svo hann geti róið í skjól þegar „minni­hlutinn“ skrúfar frá tára­flóðinu í sam­einingu. Því við erum tölu­vert stærri en látið er af.“

Þetta segir Ágústa Ágústs­dóttir, bóndi á Reistar­nesi á Mel­rakka­sléttu, í að­sendri grein sem birtist á vef Vísis í dag.

Þar lætur hún Stein­grím J. Sig­fús­son, for­seta Al­þingis og þing­mann VG, heyra það vegna um­mæla sem hann lét falla á Al­þingi í vikunni. Stein­grímur steig þá í pontu vegna frum­varps um Há­lendis­þjóð­garð og sagði hann að málið nyti stuðnings þjóðarinnar. Hinn „grenjandi minni­hluti“ ætti ekki að hafa neitunar­vald.

Ágústa segir að ef hún hafi ein­hvern tímann verið hrædd um hennar lýð­ræðis­lega rétt sé það núna.

„Að valda­maður á al­þingi geti stigið fram og gólað eins og of­vaxinn strákur að rifna úr frekju, „Ég vil, ég ætla, sama hvað“ finnst mér bera sterkan keim af yfir­gangi og al­gjörri hunsun á rétti hins al­menna þjóð­fé­lags­þegns. Lýð­ræði er Stein­grími ekki ofar­lega í huga nú sem oftar,“ segir hún og veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að vernda um­hverfi og náttúru Ís­lands nema með því að stofna þjóð­garð.

„Þeir þjóð­garðar sem nú þegar eru starf­ræktir eru góðir og gildir en rekstur þeirra er til skammar,“ segir hún og nefnir Vatna­jökuls­þjóð­garð í því sam­hengi.

„Úr hvaða peninga­brunnum á að ausa til að koma þessu fyrir­bæri á koppinn ? Það dylst engum að lausn allra mála hjá vinstri grænum eru meiri skattar. Skattar sem við þjóðin fáum að borga og eru nú þegar búnir að vera tikk­a inn síðustu misserin. Engan flokk veit ég eins skatta­glaðan og flokk Stein­gríms.“

Ágústa segir að það eitt að land­svæði sé til á korti og merkt sem þjóð­garður skapi væntingar og dragi að sér ferða­menn. En þá sé eins gott að grunn­stoðirnar séu fyrir hendi.

„Stærsti þjóð­garður Evrópu“ er slag­orð fyllt af þjóð­rembu af verstu sort og hefur ekkert með náttúru­vernd eða um­hverfis­sjónar­mið að gera. Greini­legt er að þröngva á þessu í gegnum þing fyrir næstu kosningar án þess svo mikið sem að í­huga að spyrja þjóðina á­lits. Minnis­varði um kommúníska hugsun og stjórnun vinstri grænna.“

Ágústa segir að ef Stein­grímur og ríkis­stjórnin öll beri hag fólks fyrir brjósti þá þurfi að leyfa fólki að eiga val. „Standa þarf að raun­veru­legum og dugandi kynningar­fundum um allt land þar sem báðar hliðar fá að koma fram svo fólk geti myndað sér skoðun. Þetta „ranga og villandi upp­lýsinga­flæði“ sem hæst­virtur um­hverfis­ráð­herra Guð­mundur Ingi Guð­brands­son talar um eru ein­fald­lega raddir fólks sem vilja fá að heyrast. Og ekki bara fólks, heldur raddir heilu sveitar­fé­laganna sem lýst hafa and­stöðu sinni við málið. Það er fyrst og fremst villandi og rangt að tala fyrir því að hin hliðin megi ekki heyrast. Þannig fær maður í hendurnar fal­lega skreyttan pakka sem gleður augað en inni­hald sem er rotið og lyktar illa.“

Ágústa segir að hinn „grenjandi minni­hluti“ fari fram á að á það sé hlutað og virðing borin fyrir því að þegar talað sé um að leggja þriðjunginn af landi okkar í hendur eins bákns, þá sé það ekkert smá­mál.

„Þetta er eitt af stærstu málum þjóðarinnar og varðar alla sem hér búa. Ekki bara Stein­grím og 65% af vís­bendingum hans. Ég legg til að Stein­grímur verði sér úti um barða­stóran sjó­hatt og góðan ára­bát svo hann geti róið í skjól þegar „minni­hlutinn“ skrúfar frá tára­flóðinu í sam­einingu. Því við erum tölu­vert stærri en látið er af.“