Ágúst gafst upp eftir 50 bit: „Ég er farinn heim – ógeðslega lúsmý“

Lúsmýið hefur gert mörgum Íslendingum lífið leitt það sem af er sumars og berast fregnir af mörgum illa bitnum ferðalöngum á Suðurlandi.

Jóhanna Valgeirsdóttir, hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni Laugarási, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að eitthvað af fólki hafi þurft að leita á heilsugæsluna vegna slæmra lúsmýbita.

„Þeir sem eru illa bitnir, þeir eru rosa­lega mikið bitnir,“ segir Jóhanna við Fréttablaðið og bætir við: „Við erum að tala um alveg hundrað bit. Og fólk svarar því mis­vel, þeir sem fá mikil við­brögð eru bara illa haldnir og þurfa að­stoð frá heilbrigðis­kerfinu.“

Ýmsar leiðir eru færar til að létta fólki lífið eftir sæm bit. Sumir fá uppáskrifað sterakrem hafi ekkert annað tilætluð áhrif en helst er reynt að forðast að gefa fólki slíkt. Þá geta ofnæmislyf einnig komið að gagni.

Jóhanna og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segja við Fréttablaðið að líklega eigi lúsmýtímabilið enn eftir að ná hæstu hæðum.

Lúsmýið virðist hafa verið á ferðinni á Suðurlandi um hegina ef marka má umræður í Facebook-grúppunni Lúsmý á Íslandi. Í innleggi sem Gísli nokkur setti í grúppuna í gærkvöldi sagði hann farir sínar ekki sléttar.

„Viðbjóður, það er ekki hægt að heimsækja suðurlandið án þess að vera úturstunginn, ég er farinn heim – ógeðslega lúsmý,“ sagði hann og bætti við að hann væri kominn með yfir 50 bit eftir að hafa komið í Ölfusborgir síðastliðinn föstudag.