Afhjúpa fleiri Samherjapósta: „Þorsteinn veit af þessu“

Stundin hefur birt áður óbirt gögn sem virðast sýna að stjórnendur Samherja hafi rætt um mútugreiðslur til áhrifamanna í Namibíu til að komast yfir fiskveiðikvóta í lögsögu afríkuríkisins. Samherji hefur haldið því fram að allar mútugreiðslur hafi verið hugmynd og framkvæmd Jóhannesar Stefánssonar, fyrirverandi starfsmanns fyrirtækisins í Namibíu og uppljóstrara, þeir hafi ekkert vitað um neinar mútur.

„Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ spurði Aðalsteinn Helgason, einn nánasti samstarfsmaður Þorsteins Más, árið 2012, þegar Samherji var að hefja innreið sína í Namibíu. Hann bætti svo við: „Ég á við hvort hægt sé að beita hótunum.“

Aðalsteinn sendi svo póst á Sigurstein Ingvarsson, fjármálastjóra Samherja á þeim tíma, og Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, um fyrirætlanir um að hefja veiðar í Namibíu. „ÞETTA ER ALGJÖRT TRÚNAÐARMÁL“ skrifaði hann og bætti við: „Þorsteinn veit af þessu“.

Þá birti Stundin póst frá Þorsteini Má sjálfum sem spurði: „Þarf þetta allt að vera til í póstum milli manna?“