Ætti að vera eins auðvelt að fara í hraðpróf og að fá sér pylsu

Tónlistarmaðurinn Mugison, eða Örn Elías Guðmundsson, kallar eftir því að það verði gert einfaldara að fara í hraðpróf fyrir viðburði. Hann segir á samfélagsmiðlum að hraðprófin séu „ algjör snilld“ og að hann hafi fundið það á tónleikum um daginn að gestum var létt að það væri búið að testa alla.

„En það þarf að fara í stórt átak til þess að fólk nenni að standa í þessu veseni - ætti að vera jafn einfalt og þægilegt einsog að fá sér pulsu á Bæjarins Besta. Það þyrfti að vera miklu fleirri staðir sem maður getur farið á og þessi fyrirtæki sem eru með covidtest og testcovid eru með svo ruglandi heimasíður, sem fælir marga frá... það er einsog eitthvert fermingarbarn sé að gera heimasíðu fyrir frænda sinn eða frænku á stolið forrit sem skilur bara ensku!“ segir Mugison.

Hann spyr hvort ekki sé hægt að nota frekar apótekin, eða heilsuveru, eða jafnvel island.is eða einhverja lausn sem myndi tryggja samræmi um allt land, alla daga.

„Fyrir viðburði af öllum stærðum, það er bara allt annað líf að skemmta og hitta fólk í hópum þegar þetta er komið inn í jöfnuna,“ segir hann og er svo með skýr skilaboð til nýrrar ríkisstjórnar, sem tekur við síðar í dag.

„Ég vil biðla til nýrrar ríkistjórnar að taka á þessu á nútímalegan hátt, hratt og örugglega.“

Fleiri fréttir