Ætli Framsókn líti enn á Esjuna sem fjóshaug?

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrr í þessum mánuði birtist skemmtileg upprifjun frá árinu 1962 þar sem blaðið og Tíminn, málgagn Framsóknar, tókust á í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Tíminn er ekki lengur á lífi þannig að ekki má vænta umfjöllunar blaðsins um borgarmálin í aðdraganda kosninga nú í vor.

Á þessum árum réði Sjálfstæðisflokkurinn borginni, hafði gert í langan tíma og átti eftir að ráða þar ríkjum um árabil uns borgin gekk flokknum úr greipum árið 1994, að því er virðist fyrir fullt og allt.

Framsóknarmenn og málgagn þeirra, Tíminn, jusu stöðugum svívirðingum og rógburði yfir Sjálfstæðisflokkinn vegna stjórnunar og skipulags borgarinnar. Svo virtist sem Framsóknarlokkurinn hataðist beinlínis við borgina.

Í umræddri grein í Morgunblaðinu segir orðrétt: „...svo langt hefur ónáttúra Tímans gengið, að hann gat ekki unnt Reykvíkingum aðdáunar á útsýninu til Esjunnar og líkti henni við fjóshaug.“

Framsóknarmenn eru í eðli sínu sveitamenn og sjá heiminn stundum með fjóshauginn sem sjónarhól. Ekki þarf að hafa mörg orð um að illmæli Framsóknar um Reykjavík breyttu engu um úrslit kosninganna 1962. Sjálfstæðisflokkurinn vann yfirburðasigur undir forystu Geirs Hallgrímssonar, fékk 9 menn kjörna af 15 borgarfulltrúum.

Framsókn hefur engu ráðið í borgarmáum Reykjavíkur um langt skeið. Virðist það alls ekki hafa komið að sök. Þó að borgarfulltrúar séu nú 23 að tölu fékk Framsóknarflokkurinn engan mann kjörinn í kosningunum vorið 2018. Ekki verður séð að það gæti neitt skaðað borgarbúa þótt það endurtæki sig í komandi kosningum.

Flokkurinn leitaði með logandi ljósi að þekktu fólki til að skipa lista sinn í komandi kosningum. Ýmiss nöfn voru nefnd og sitthvað reynt án árangurs. Svo fór að lokum að flokkurinn stillti upp í efsta sæti fyrrum sjónvarpsfréttamanni sem hefur lengst af fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og var meðal annars formaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi á sínum tíma.

Skyndilega skipti hann um flokk og þáði efsta sætið í Reykjavík. Helst mætti hafa frambjóðandanum það til afsökunar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur smám saman breyst í óttalegan framsóknarflokk – þannig að það var ef til vill ekki langt að fara!

Hitt er svo annað mál að Reykjavíkurborg verður ekki betur sett ef Framsókn fær borgarfulltrúa kjörinn í vor. Framsókn berst hatrammlega gegn því að höfuðborgarsvæðið fái notið jafnréttis þegar kemur að vægi atkvæða í þingkosningum. Landsbyggðin hefur tvöfalt vægi á við Reykjavík og nágrannabyggðalög vegna þess að Framsóknarflokkurinn stendur vörð um ranglætið – og sækir vald sitt í þjóðmálum talsvert til þeirrar stöðu. Reykvíkingar þurfa ekkert á slíkum flokki að halda við stjórn borgarinnar.

- Ólafur Arnarson