Á suðupunkti í silfrinu: egill neyddist til að stöðva atla og róa gesti niður

Mikill hiti var í mönnum í Silfrinu fyrr í dag þegar Atli Þór Fanndal fjölmiðlamaður og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins tókust á í beinni útsendingu. Svo fór að Egill neyddist til að stöðva Atla sem hafði þá hafið lestur og byrjað að telja upp dæmi sem hann taldi sanna að Jón Gunnarsson væri spilltur. Atli sagði:

 „Við sjáum það til dæmis í því að það er maður sem situr hliðin á mér sem var að halda því fram að það væri ekkert öðruvísi við hann og það væri voðalega vont að tala beint til hans. Hann notaði taktík sem er kennd í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, að móðgast alltaf.“

Atli var hvergi nærri hættur og bætti við:

„Hann situr fyrir flokk sem fékk tugi milljóna í leynilega styrki frá bönkum og FL Group og lofaði að borga til baka. Hann gerði það aldrei. Þegar farið er að tala um kjarna málsins, að það sé einn flokkur sem útgerðin treystir mest og hefur fengið langmest frá útgerðinni, þá er gripið til svona ofboðslegrar móðgunargirni.

Jón Gunnarsson tók þá til máls og sakaði Atla um að vera pólitískan og hún snerist um að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan og uppnefna hann spillarflokk og flokk auðvaldssinna. Einnig væri reynt að telja fólki trú um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru að raka að sér fjármagni með ólögmætum hætti. Jón sagði:

„Það er þetta sem ég frábið mér, að sitja undir slíkum ásökunum. Það er óboðleg umræða.“

Atli fékk þá orðið og sagði: „Ég er ekki hluti af sama fúsksamfélagi og hann. Þá datt mér í hug að þetta myndi fara svona og hann myndi móðgast á eftir.“

Atli vildi þá fá að lesa upp dæmi um spillingarmál sem hann sakaði Jón um að tengjast. Á þeirri stundu ákvað þáttastjórnandinn Egill Helgason að grípa inn í. Sagði hann þáttinn ekki snúast um Jón Gunnarsson, fókusinn ætti að vera á Samherjamálið. Agli gekk erfiðlega að stöðva Atla sem vildi halda lestri sínum áfram og neyddist Egill til að hækka róminn. Jón Gunnarsson skaut svo inn í:

„Þetta fer út í persónulegt skítkast sem stöðugt er verið að reyna að stunda hér en það er ágætt að fólk sjái hvernig vinnubrögðin eru.“

Þá sagði Egill og reyndi að róa menn niður:

„Ég ætlaði nú að fara með þetta dáldið annað, ég verð að viðurkenna það, þá almennt um hvort Ísland væri spillt samfélag.“

Umræðurnar í þættinum má sjá þegar um hálftími er liðinn af þættinum.