Á meðan Róm brennur

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerðist menningarlegur í viðtali við Vísi/Stöð 2 fyrir sumarfund ríkisstjórnarinnar í Grindavík er hann greip til líkingamáls um vanda Landspítalans. Bjarni er ekki með öllu ókunnugur myndlíkingum, en mörgum eru í fersku minni orð sem hann lét falla eftir að hann hlaut kosningu fyrsta sinni sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 2009. Hann gerði þá orð tengdaföður síns, Baldvins Jónssonar, að sínum: „Ég er eins og skyr, ég er mjög hrærður.“

Ekki er vitað hvort Baldvin er einnig höfundur myndlíkingarinnar um vanda Landspítalans en ekki tókst Bjarna jafn vel upp með henni og á landsfundinum forðum. Bjarni hrósaði heilbrigðisstarfsfólki fyrir að hafa staðið sig frábærlega undir miklu álagi í baráttunni gegn veiruvánni en gagnrýndi stjórnun Landspítalans harkalega og líkti íslenska heilbrigðiskerfinu við sinfóníuhljómsveit. Engu máli skipti hversu vel fiðluleikararnir reyndu að standa sig vegna þess að ef stjórnunin væri ekki í lagi heyrðist ekki tónlistin sem fólki líkar.

Gott og vel. Bjarni hefði mátt skoða eigin myndlíkingu í víðara samhengi og þá er óvíst að hann hefði notað hana. Margoft hefur komið fram að vandinn sem einna helst reynir á þolmörk Landspítalans er skortur á rýmum á hjúkrunarheimilum landsins. Fyrir vikið liggja tugir og jafnvel hundruð sjúklinga á Landspítalanum sem eiga alls ekki að vera þar. Þess vegna er spítalinn við þolmörk. Stjórnendur Landspítalans geta ekkert gert við því vandamáli.

Landspítalinn er brothættur og getur hæglega sprungið þannig að ekki verði unnt að sinna sjúklingum sem veikjast af Covid eða einhverju öðru. Orsök þessa vanda er ekki stjórnunarvandi Landspítalans heldur stjórnunarvandi æðstu yfirstjórnar heilbrigðis- og fjármála á Íslandi. Þetta er stjórnunarvandi í ríkisstjórn Íslands og á Alþingi. Það er á ábyrgð þingsins og framkvæmdavaldsins að forgangsraða þannig að aðbúnaður aldraðra og sjúkra hér á landi sé með þeim hætti að til sóma sé og valdi ekki vá á Landspítalanum.

Í myndlíkingu sinni ætlaði fjármálaráðherra bersýnilega að benda á stjórnendur Landspítalans sem óhæfa stjórnendur yfir hæfu og ósérhlífnu starfsfólki spítalans. Það eru hins vegar Bjarni Benediktsson, Svandís Svavarsdóttir og aðrir ráðamenn íslensku þjóðarinnar sem eru óhæfir stjórnendur sem komið ágætu íslensku heilbrigðiskerfi á heljarþröm þrátt fyrir stöðugan lífróður stjórnenda og starfsfólks Landspítalans. Þetta hafa ráðamenn gert vitandi vits og með galopin augu. Ekki geta þeir skákað í því skjólinu að ástandið nú komi þeim á óvart. Ríkið hefur markvisst fjársvelt rekstur hjúkrunarheimila hér á landi og reynt að koma þeim kaleik af sér yfir á sveitarfélögin á landinu án þess að tekjustofnar fylgi með. Ýmsir flokksbræður fjármálaráðherra úr hópi sveitastjórnarmanna geta vitnað um ótrúlegan fautaskap af hálfu ríkisins í þessum efnum.

Heldur verður það líka að teljast óheppilegt hjá stjórnmálamanni að grípa til myndlíkingar með fiðlur til að lýsa ríkiskerfi sem stefnir í rjúkandi rúst. Hefur fjármálaráðherra einhvern tíma heyrt um rómverska keisarann Neró sem spilaði á fiðlu á meðan Róm brann?

- Ólafur Arnarson