75 þúsund króna skuld í gær varð að 150 þúsund króna skuld í morgun

Margir hafa lýst yfir furðu sinni á hörku nýs innheimtufyrirtækis, BPP innheimta ehf., við að innheimta skuldir. Fyrirtækið hefur keypt allt kröfusafn Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla.

Umræða um þetta hefur til dæmis skapast í Facebook-hópnum Fjármálatips sem telur 20 þúsund meðlimi. Þar segir einn ónefndur aðili: „Vitið þið hvað BPO innheimta er, hef ekki fengið nein bréf en það er verið að setja 150000 króna skuld á mig sem í gær var 75000 og kostnaðurinn búinn að tvöfaldast yfir nótt, engin sundurliðun eða neitt, er þetta ekki ólöglegt?“

Viðkomandi segir að krafan hafi verið sett inn í gærkvöldi og með eindaga sama dag.

Fjallað er um málið á vef Neytendasamtakanna en þar er vísað í tilkynningu fyrirtækisins í gær þar sem fram kom að allir vextir og lántökukostnaður, aðrir en dráttarvextir, yrðu felldir niður. Jafnframt kom fram að BPO innheimta hygðist bjóða öllum skuldurum upp á að á að gera sín mál upp fyrir 15. maí nk. án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. 

Í frétt á vef samtakanna kemur fram að frá því í gær hafi fyrirspurnum rignt inn til samtakanna. Eiga þær það flest sameiginlegt að framangreindar upplýsingar frá innheimtufélaginu koma ekki heim saman.

„Fjárhæð þeirra reikninga sem BPO hefur sent fyrrum lántökum og Neytendasamtökunum hafa borist, nema ekki einvörðungu höfuðstól krafnanna heldur að því er virðist einnig lántökukostnaði, innheimtukostnaði og vöxtum. Þá voru kröfur settar inn í heimabanka seint í gær, 13. apríl með eindaga sama dag. Hefur þetta valdið lántakendum vanda og verður að teljast afar óeðlilegt. Þá eru dæmi um að kröfur hafi hækkað mikið, jafnvel tvöfaldast frá því í gærkvöldi.“

Neytendasamtökin hafa alla tíð ráðlagt fólki að greiða til baka höfuðstól lánanna en ekki ólöglega vexti þessara lána. Minna þau á að áfrýjunarnefnd neytendamála hafi staðfest að fram til maí 2019 hafi vextir þessara lána verið hærri en lög og því þurfi neytandi ekki að greiða þá. Jafnframt hvetja samtökin til þess að lántakar leiti skuldajöfnunar, hafi þeir greitt of mikið af lánum sínum.

„Ætla má að stór hluti þeirra krafna sem sagðar hafa verið keyptar og BPO innheimta innheimtir nú varði ólögleg lán (flýtigjaldslán, rafbókarlán, og lán með ÁHK langt umfram löglegt hámark). Þau sem tekið hafa lán fyrir maí 2019 og hafa greitt af þeim, hafa því að öllum líkindum greitt ólögmætan vaxtakostnað og hugsanlega líka vanskilakostnað og dráttarvexti vegna ólöglegra lána. Að mati Neytendasamtakanna er það brot á innheimtulögum að innheimta lán sem fyrir liggur að beri ólögmæta vexti og að setja slík lán í innheimtuferli. Nú þegar hefur mál borist samtökunum þar sem lítur út fyrir að BPO sé að innheimta kröfur sem að stórum hluta til séu fyrndar að fullu leyti.“

Frekari upplýsingar má nálgast á vef Neytendasamtakanna.