537 fermetra höll til sölu: gæti farið á 35 til 40 milljónir

537,3 fermetra höll er til sölu en einbýlishúsið er á tveimur hæðum. Það er byggt árið 1917. Þar eru 16 herbergi, tvö baðherbergi, svalir, garður, kjallari. Eignin stendur á glæsilegum útsýnisstað á hæsta punkti á einni fallegustu eyju Íslands, sjálfri Hrísey. Tryggvi Gunnarsson fasteignasali hjá Eignaveri segir í samtali við Hringbraut að óskað sé eftir tilboðum í þetta höfuðból Hríseyinga en hans tilfinning er að verðmatið hlaupi á bilinu 35 til 40 milljónir.

„Þetta er tignarlegt hús sem má muna sinn fífil fegri en er það hús sem stendur hæst á eyjunni ef vitinn er ekki talinn með. Það þarf að gera eitt og annað fyrir húsið en hafi nýr eigandi tök á að ráðast í fullar endurbætur eignast hann líklega virðulegasta hús í öllum Eyjafirði. Útsýnið er ótrúlegt, alveg magnað.“

Þó að ráðast þurfi í verulegar lagfæringar er hægt að flytja inn strax . Eigandi hefur leigt það út og þá hafa listamenn sem heimsótt hafa eyjuna fengið að gista í húsinu. Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sem á hús í Hrísey hvetur fólk á Facebook til að kaupa húsið. Hann segir:

„Höfuðból Hríseyinga, sjálfur Syðstibær, er komið á sölu. Kjörið tækifæri fyrir smíðaglatt menningarfólk að finna aftur karakterinn í þessu glæsihúsi og stofna þarna lýðháskóla, hótel, listamannasel, heilsubæli, jógaból, fræðahöll eða skoðunarhvalasetur fyrir skoðunarhvali að koma úr kafi og fara í detox og samfélagsmiðlabann.“

Í lýsingu á eigninni segir að neðri hæð, sem er 295,8 fermetrar, skiptist í forstofu, tvö hol, fimm svefnherbergi, stofa, eldhús, baðherbergi, þvottahús og búr. Sérgeymslur og sameiginleg rými í sameign hússins. Þá er þar einnig að finna útihús og geymslu.

Um efri hæð segir: „241,5 fm. Eignin skiptist í forstofu, gangur, fimm svefnherbergi, stofur, eldhús, baðherbergi, þvottahús og búr. Sérgeymslur og sameiginleg rými í sameign hússins.“

Hér má sjá myndir af húsinu en frekari upplýsingar má finna hér.

Búr fylgir, nóg pláss fyrir mat.

Glæsilegt baðherbergi

Drungalegur kjallari fylgir með

Útsýnið er frábært og hægt að fylgjast með bátunum sigla að landi