47 milljóna gjaldþrot veitingareksturs - verður ekki endurreistur

14. janúar 2021
10:58
Fréttir & pistlar

Skiptum er í lokið í búi Sæmundar í sparifötunum ehf. sem var utan um veitingahluta Kex Hostel. Reksturinn hafði verið þungur um talsvert skeið en kórónuveirufaraldurinn var síðasti naglinn í líkkistuna. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 22.apríl síðastliðinn.

Lýstar kröfur í búið voru alls 47,3 milljónir króna en engar eignir fundust í búinu.

Í viðtali við Stundina í apríl sagði Pétur Hafliði Marteinsson, einn af eigendum fyrirtækisins, að gjaldþrotið hefði verið óumflýjanlegt.

„Það hafa staðið yfir gríðarlegar framkvæmdir, fyrst á Hverfisgötunni og síðan bara allt í kringum okkur á KEX í langan tíma. Það hefur allt verið rifið upp þarna, það var 25 metra hola á bakvið hjá okkur þannig að aðgengi að staðnum hefur verið mjög lélegt. Síðan, með hruni WOW air og með færri ferðamönnum í kjölfar þess hefur reksturinn verið gríðarlega erfiður og það þarf síðan engum að koma á óvart að róðurinn hafi enn þyngst þegar að kórónaveiran mætti á svæðið. Það var tekið á það ráð að loka KEX og það verður ekki afturkvæmt með veitingahlutann, því miður. Hann bara skuldaði of mikið eftir þetta.“

Eigendahópur fyrirtækisins er stór og fjölbreyttur en auk Péturs Hafliða eiga Birkir Kristinsson, Einar Örn Ólafsson og Halla Sigrún Hjartardóttir hlut í staðnum auk annarra.

Hér má sjá yfirlitsmynd yfir hlutahafahópinn:

Eigendahópur.PNG