17 af 20 starfsmönnum veikir eftir bólusetningu í gær: „Aldrei séð manninn minn jafn veikan“

Svo virðist vera sem margir hafi fengið talsverðar aukaverkanir eftir að hafa þegið bóluefni í Laugardalshöllinni í gær. Ef marka má umræðuna á Twitter eru margir slappir og með beinverki eftir bólusetninguna, en bólusett var með bóluefni Janssen í gær.

Soffía Emelía Bragadóttir, leikskólastjóri á Mánagarði í Reykjavík, segir í samtali við fréttavef Vísis að sautján af tuttugu starfsmönnum sem fóru í bólusetningu í gær séu veikir og frá vinnu í dag. Segist Soffía hafa fengið sambærilegar upplýsingar frá öðrum leikskólum. „Ég er búin að biðja foreldra um að halda börnum heima. Það er meira en helmingur starfsfólks fjarverandi,“ segir hún.

Á Twitter tala einnig margir um slappleika eftir bólusetninguna í gær.

„Er fólk almennt að fokkast upp eftir Jansen í morgun?,“ spyr einn Twitter-notandi og ekki stendur á svörum frá fólki sem kannast við það:

„Já. Líður eins og eftir marga daga af hita. Beinverkir, þorsti, þreyta.“

„Já. Var frekar svona dasaður í gær eftir sprautuna en annars hress en þegar ég skreið upp í rúm var ég orðinn almennilega slappur og það virðist ekki hafa farið úr mér við svefninn.“

„Ég hef að minnsta kosti aldrei séð manninn minn jafn veikan.“

„Já, mér líður skelfilega.“