Því verður katrín jakobsdóttir ekki formaður sjálfstæðisflokksins?

Áfram velta fjölmiðlar fyrir sér stöðu forystumála í Sjálfstæðisflokknum. Núna síðast Pressan.is. Þar koma fram vangaveltur um að Bjarni Benediktsson muni ekki láta af formennsku í haust en miklu frekar á landsfundi á næst ári. Tíminn er fljótur að líða og því halda bollaleggingar áfram um næsta formann. Bent er á núverandi varaformann flokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem margir líta á sem „björtustu vonina“ í flokknum. Aðrir telja að valdataka hennar sé samt engan vegin tímabær en raunhæf eftir 5 til 10 ár. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er að margra mati sjálfsagður kostur sem formaður þegar Bjarni stígur niður, trúlega á landsfundi næsta vor. Hann er með langsterkasta baklandið í flokknum og tvímælalaust mestu reynsluna eftir langan þingmannsferil og setu í þremur ríkisstjórnum. Þá þykir hann duglegastur allra stjórnmálamanna Sjálfstæðisflokksins. Þó er vitað að margir í innsta hring „flokkseigendafélagsins“ geta ekki hugsað sér að styðja Guðlaug Þór.

Harðlínumenn í flokknum, sem meðal annars hafa látið öllum illum látum út af þriðja orkupakkanum, reyna að fleyta nafni Elliða Vignissonar þegar rætt er um næsta formann. Fæstir taka þeirri hugmynd alvarlega – nema menn sem eru staðráðnir í því að ganga endanlega að Sjálfstæðisflokknum dauðum. Elliði splundraði Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum með hroka og yfirgangi og hrökklaðist upp á land til að stýra smásveitarfélaginu Ölfusi. Maður sem getur ekki haldið saman flokksfélagi í 4.500 manna sveitarfélagi, Vestmannaeyjum, getur því síður haldið saman stjórnmálaflokki á landsvísu. Jafnvel þó flokkurinn minnki stöðugt.

Í lok skrifa Pressunar.is er því velt upp hvort Sjálfstðisflokkurinn þurfi ekki að leita út fyrir núverandi hóp forystumanna flokksins. Því ekki?

Náttfari bendir nú á augljósan kandidat: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er málefnalega og stjórnmálalega alveg á sömu línu og Sjálfstæðisflokkurinn. Hún hampar NATÓ sem lengi var helsta ágreiningsefni hægri-og vinstrimanna en er það ekki lengur. Flokkur hennar Vinstri græn hafa gefið eftir grænar áherslur og er nú meira Vinstri grá. Katrín er alveg komin inn á línu Sjálfstæðisflokksins í skattamálum og velferðarmálum og hún styður andstöðu flokksins við útlönd og ESB, styður gjafakvótakerfið í sjávarútvegi og tók þátt í að lækka veiðileyfagjöldin um 4 milljarða í stað þess að efla heilbrigðiskerfið um sömu fjárhæð. Katrín gerir allt eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill; síðast nú í sumar þegar hún skipaði alþjóðasinnaðan miðju-hægrimann í stöðu seðlabankastjóra frekar en sósíalista sem var einnig faglega hæfur.

Katrín Jakobsdóttir hefur snúið baki við sínum gömlu flokkum, Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum, og á nú bara eftir að stíga skrefið yfir í Sjálfstæðisflokkinn og taka þar við formennsku – einmitt á sama tíma og flokkinn sárvantar nýjan formann.