Mannamál / Ragnar Axelsson
Einn lofaðasti ljósmyndari landsins veifar hálfdauðum þumli framan í áhorfendur Mannamáls, en þar er um Ragnar Axelsson að ræða, nýlega kominn af Grænlandi þar sem hægra þumal hans kól svo mjög að hætt er við að ljósmyndarinn tapi honum alveg.
Það er hreint ótrúlegt að fylgjast með Raxa í sagnaham í þættinum, en svaðilfarinar eru orðnar margar á norðurslóðum, svo sem nærri 60 ferðirnar til Grænlands, sumar hverjar svo ógurlegar að heyra og sjá að áhorfendur hlýtur að setja hljóða, svo sem sagan af því þegar Raxi stalst með grænlenskum vini sínum til 30 ára út á ísjakana til að fella þar ísbirni, en eftir að hafa skotið einn, fann sá grænlenski ekki fleiri skot í fórum sínum - og hinir birnirnir á stjái á ísnum sem var orðinn svo veikur að hann virtist ætla að brotna undan mönnum og dýrum; líklega færi best á því að kalla til þyrlu, það væri eina björgunarleiðin, en Raxi kvaðst illu heilli ekki vera tryggður í svoleiðis milljónadæmi, hann myndi fyrir vikið freista þess að ganga til byggða - og þá sagði vinurinn, fyrst svo er fer ég með þér, tilbúinn sumsé að ganga í opinn dauðann með félaga sínum fremur en yfirgefa hann.
Raxi ólst upp við jöklana í Kvískerjum og varð náttúrubarn strax í æsku - og það er unun að fylgja honum eftir í þættinum.