Hjúkrun í heila öld

27.05.2019

Í heimildarmyndinni Hjúkrun í heila öld er rakin saga hjúkrunarstéttarinnar á Íslandi frá dagsbrún síðustu aldar.

Gerð myndarinnar er eitt viðamesta verkefni Hringbrautar í bráðum fimm ára sögu hennar, en að baki hennar liggur mikil heimildarvinna og myndasöfnun og þá eru viðmælendur myndarinnar hátt í 30 að tölu, þeirra á meðal Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands sem ólst upp í faðmi hjúkrunar á æskuheimili sínu á Ásvallagötu, en móðir hennar var formaður félags hjúkrunarkvenna um áratugaskeið á fyrri hluta síðustu aldar og fram á hana miðja. Þrjár fyrrverandi þingkonur koma einnig við sögu sem allar hafa mikla reynslu af hjúkrunarstörfum, þær Ásta Möller, Ingibjörg Pálmadóttir og Þuríður Backman, en þær eru einmitt áminning um hvað hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttir starfskraftar víða í samfélaginu, eins og vel kemur fram í heimildarmyndinni.

Hjúkrunarfagið á Íslandi á dönskum konum mikið að þakka, en þær voru frumkvöðlar á sviði umönnunar um þarsíðustu aldamót - og kenndu íslenskri þjóð að þrífa sig og varast smit, en heimsfaraldrar af öllu tagi riðu yfir Ísland um það leyti; taugaveiki, holdsveiki, lömunarveiki og berklar svo eitthvað sé nefnt, en að öðru leyti heilsaðist mannskapnum ekkert sérstaklega vel við ömurlegar vinnuaðstæður í mörgum tilvikum og í lélegum húsakosti. Og það er til marks um frumstæðar aðstæður þessara tíma að sjúkrarúm voru af svo skornum skammti að fjöldi sjúklinga var geymdur í kössum. Þessar kringumstæður fangar nýja heimildarmyndin á einstaklega heillandi og áhugaverðan hátt, auk þess sem hún sýnir vel þær öfgar í upplýsingu, menntun og vísindum sem orðið hafa á þeim 100 árum sem hjúkrunarfagið hefur verið við lýði á Íslandi, en tölfræðin er þar öll á einn veg, svo sem ungbarnadauðinn er til vitnis um, en fyrir einni öld var hann einna mestur í heimi á Íslandi, en er nú sá minnsti sem sögur fara af á jörðinni.

Handrit og upptökustjórn myndarinnar er í höndum Sigmundar Ernis Rúnarssonar, kvikmyndastjórn annast Björn Sigurðsson og aðstoð við dagskrárgerð rækir Snædís Snorradóttir. Verkefnisstjórn er á hendi Eddu Drafnar Daníelsdóttur, en samstarfsaðili við gerð myndarinnar er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Fleiri myndbönd

Gengið á Alpana – 28. desember 2019

03.01.2020

Gengið á Dólómítana - 29. desember 2019

03.01.2020

Glæsibær - 11. desember 2019

13.12.2019

Miðbærinn - seinni þáttur - 10. desember 2019

11.12.2019

Miðbærinn - fyrri þáttur - 3. desember 2019

04.12.2019

Saga flugsins

23.04.2019

Saga bjórsins

01.04.2019

Sturlungar á Þingvöllum

04.01.2019

Brosað á ný

18.10.2018

Fermingar 12.janúar

13.02.2018

ÞORRINN 2018

23.01.2018

Jólabræðingur

17.12.2017