Jóhann Páll: „Þessi framganga er ógeðsleg“

Jóhann Páll: „Þessi framganga er ógeðsleg“

„Það er eins og þeir séu að reyna nýta sér það að ég er veik, að reyna að brjóta mig niður. Þeir eru að lemja á veikri manneskju sem hefur ekki orku í slaginn.“ Þetta sagði Bára Halldórsdóttir fyrr í dag við Stundina. Eins og kom fram í dag fóru fjórir þingmenn Miðflokksins fram á það að lögmaður þeirra afli frekari gagna í hinu svokallaða Klaustursmáli. Lögmaður þeirra hefur nú lagt fram kröfu til Persónuverndar um aukna gagnaöflun í málinu. Meðal þeirra gagna sem er óskað eftir eru upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum varðandi millifærslur á fjármunum inn á persónulegan reikning Báru Halldórsdóttur. Á bankayfirlitinu eru ekki nema tvær færslur fyrir umrætt tímabil.

Bára var nýkominn af spítala þegar hún frétti af nýjasta útspili Miðflokksmanna og segir að heilsunni hafi hrakað og segir viðbrögð þingmannanna gagnvart henni hafa áhrif á hana. Þessi ákvörðun Miðflokksins hefur reitt marga til reiði. Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni er ómyrkur í máli og segir á samskiptamiðlum:

„Best að segja það bara hreint út: Þessi framganga þingmannanna er ógeðsleg ofbeldisaðgerð og segir miklu meira um innræti þeirra heldur en orðin sem þeir létu falla á Klaustri.“

Jóhann Páll segir valdamisvægið algjörlega fullkomið. Hann heldur áfram:

„Tekjuháir valdamenn sem sjálfir njóta þinghelgi að ráðast til atlögu við fárveikan og fátækan öryrkja. Rógbera hana í fjölmiðlum og rembast við að gera hana gjaldþrota. Allt að því er virðist í hefndarskyni, því Bára vogaði sér að opinbera fyrir alþjóð hvað þeir eru pínupínulitlir karlar.“

Nýjast