Sigmundur Davíð: Fellibyljir ekki algengari - Nú er byggt á svæðum þar sem fellibyljir réðu ríkju og þess vegna er tjónið meira - Hjólaði í alla

Sigmundur Davíð: Fellibyljir ekki algengari - Nú er byggt á svæðum þar sem fellibyljir réðu ríkju og þess vegna er tjónið meira - Hjólaði í alla

Ríkisstjórn byggð á stólum ekki stefnu. Fellibyljir algengari vegna þess að byggt er á svæðum þar sem fellibyljir réðu ríkjum og því sé tjónið meira. Ekki notast við sýndarpólitík og moka ofan í skurði. Refsiskattar sem auka álögur. Skattkerfið gert að flækju. Bætur til eldri borgara og lífeyrisþega skert um leið og sósíalískar áherslur svífa áherslur yfir vötnum. Steypukassar byggðir í miðbænum og forseti fer frjálslega með þingsköpin. Þá sé Framsóknarflokkurinn til í hvað sem er ef hann fær bara að vera með um leið og Vinstri græn stýri Sjálfstæðisflokknum sem hafi látið eina pólitíska ráðherrann fjúka úr ríkisstjórn. Þá fái umhverfisráðherra að innleiða stefnu á tillits til laga og heilbrigðisráðherra vinni að því að koma á marxísku heilbrigðiskerfi.

Þetta og fleira til kom fram í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann flutti sína ræðu eftir stefnuræðu forsætisráðherra. Sigmundur Davíð hóf ræðu sína á þessum orðum:

„Við vissum hvað lagt var upp með þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Það lá ljóst fyrir að þetta væri ríkisstjórn mynduð um stóla en ekki stefnu. Þegar lagt er af stað á þeim forsendum birtist það óhjákvæmilega í sýndarpólitík á meðan stjórnkerfinu, innlendu og erlendu er eftirlátið að leggja línurnar og stjórna.“

Katrín lagði mikla áherslu á loftslagsmál í sinni ræðu. Sagði Sigmundur það vera mikilvæg og stór mál en að þeir sem ræddu þau ættu það sameiginlegt að þeir sem töluðu mest nálguðust þau á kolrangan hátt. Sigmundur Davíð sagði:

„Alþjóða veðurfræðisstofnunin varaði nýverið við ofstæki í loftslagsmálum. Það er t.a.m. ekki rétt sem forsætisráðherra hélt fram í ræðu sinni að fellibyljir væru orðnir tíðari og öflugri en áður. Munurinn liggur í því að nú er mun meiri byggð en áður á þeim svæðum þar sem fellibyljir eru algengastir og tjónið því meira.“

Þá bætti Sigmundur Davíð við. „Til að takast á við stór úrlausnarefni eins og ógnir í umhverfismálum þurfum við að beita vísindum og skynsemi, en ekki notast við sýndarpólitík og moka ofan í skurði. Og ekki með því að finna upp sífellt fleiri refsiskatta, hvaða nöfnum sem þeir eru nefndir. Skatta sem hafa ekki önnur áhrif en að auka álögur á almenning, hækka verðlagsvísitölu og bitna auðvitað verst á þeim tekjulægri.“

Sigmundur sagði einnig sótt að landbúnaði úr öllum áttum og sagði nauðsynlegt að efla innlenda matvælaframleiðslu. „Þess í stað er henni gert erfitt fyrir og opnað á innflutning á sýklalyfjamenguðu kjöti úr erlendum verksmiðjubúum.“

Skattkerfið flækt

Sigmundur sagði að Bjarni Benediktsson hefði kynnt stoltur að skattkerfið yrði einfaldað og skattþrepum fækkað úr þremur í tvö. Sigmundur sagði: „Á sama tíma er haldið áfram að flækja skattkerfið. [...] Nú tilkynnir sami ráðherra að  kerfið verði flækt aftur og þrepunum fjölgað úr tveimur í þrjú.“

Þá sagði Sigmundur Davíð einnig: „Eldri borgarar og aðrir lífeyrisþegar þurfa þó enn að bíða eftir því að loforð um sanngjarnara lífeyriskerfi verði uppfyllt og tekið verði almennilega á óskynsamlegum og óeðlilegum skerðingum.“

Sigmundur Davíð hélt áfram: „Um leið svífa sósíalískar áherslur yfir vötnum. Áðan tilkynnti forsætisráðherra að meira að segja vindurinn ætti að vera í ríkisinseigu. Ég hygg að engum stjórnvöldum nokkurs staðar hafi dottið slíkt í hug í seinni tíma sögu.“

Formaður miðflokksins gagnrýndi svo hin ýmsu uppbyggingarverkefni meirihlutans sem hann sagði birtast helst í steinsteypukössum í 101 Reykjavík. Sigmundur Davíð sagði: „Byggja á stóran kassa við Stjórnarráðið, miklu stærri kassa hér á Alþingisreitnum og risastórum kössum verður bætt utan á gamla Landspítalann við Hringbraut.“ 

Ræddi um hina pólitísku þróun

Sigmundur Davíð sagði: „Forsætisráðherra ræddi um þróun stjórnmála. Ég get tekið undir eitt og annað sem ráðherrann sagði um stjórnmál og mikilvægi þingræðis. Því miður hefur reynslan hvað þetta varðar þó ekki verið góð a þessu kjörtímabili. Forseti þings hefur farið frjálslega með þingsköpin svo ekki sé fastar að orði kveðið. Um leið situr ríkisstjórn sem er ekki mynduð um stefnu heldur stóla.“

Næst gagnrýndi Sigmundur Davíð Framsóknarflokkinn. Hann sagði:

„Áhrifaleysi minnsta flokksins í þessari ríkisstjórn kemur engum á óvart enda flokkurinn löngu búinn að sýna að hann sé til í hvað sem er bara fyrir að fá að vera með. Og virðist ánægður með að fá að kynna sömu málin aftur og aftur.“

Sigmundur bætti svo við að það sem kæmi honum mest á óvart væri að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn léti yfir sig ganga af hálfu leiðandi flokksins í ríkisstjórninni. Sigmundur Davíð sagði:

„Sjálfstæðisflokkurinn var með ráðherra sem mátti eiga það að hann var pólitískur og virtist ætla að fylgja ákveðinni stefnu. Vinstri græn sáu hins vegar um að koma þeim ráðherra úr ríkisstjórninni. Leiðandi flokkur ríkisstjórnarinnar virðist hafa meira svigrúm en hinir til að reka sína pólitík.  Umhverfisráðherra fær að innleiða eigin stefnu án tillits til laga. Heilbrigðisráðherrann vinnur að því að koma á marxísku heilbrigðiskerfi en býr um leið til tvöfalt heilbrigðiskerfi.“

Sigmundur Davíð hélt áfram:

„Og forsætisráðherrann kemur sínum málum í gegn og lætur fylgja yfirlýsingar sem ég ætla ekki að hafa eftir í kvöld. Yfirlýsingar sem maður hefði þó talið að samstarfsmenn myndu telja óhugnanlegar.“

Nýjast