Ole Anton sakar Hval um ósannindi: Nýtt leyfi aldrei gefið út

Ole Anton sakar Hval um ósannindi: Nýtt leyfi aldrei gefið út

„Leyfið kemur ekkert fyrr en svo seint. Það kemur ekki fyrr en í lok febrúar. Og þá þarf að panta varahluti. Og það tekur 6-8 vikur, og upp í 10 vikur. Og síðan á eftir að vinna við þetta. Svoleiðis að þá er bara vertíðin búin. Það hefði aldrei verið klárt þá fyrr en í seinnipartinn í ágúst. Og það þýðir ekkert að vera að fara út á svoleiðis. Það gengur ekki upp.“ 

Þetta sagði Ólafur Ólafsson skipstjóri á skipinu Hval 9 í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 þann 4. júní síðastliðinn. Þá var ljóst að engar hvalveiðar mundu eiga sér stað hjá Hval Hf og var skýringin sögð sú að veiðileyfi hefði komið of seint til að nægur tími gæfist til að ljúka nauðsynlegu viðhaldi á hvalbátnum.

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi dýra-, náttúru- og umhverfisverndarsamtakanna Jarðarvina hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem er að finna tölvupóstsamskipti við Ástu Einarsdóttur lögfræðing sjávarútvegsráðuneytisins, dagsett í gær, föstudag. Tölvupósturinn staðfesti að sjávarútvegsráðherra hafi ekki veitt Hval hf nýtt leyfi til langreyðaveiða.  Ole Anton segir:

„Pósturinn staðfestir, að sjávarútvegsráðherra hefur ekki veitt Hval hf neitt nýtt leyfi til langreyðaveiða, þrátt fyrir það, að hann hafi gefið út reglugerð um langreyðaveiðar 19. febrúar sl., sem hefði getað leitt til slíkar leyfisveitingar.

Í svari Ástu til Ole Antons segir einfaldlega:

„Nýtt leyfi til langreyðaveiða hefur ekki verið gefið út.”

 Ole bætir við að skortur á veiðileyfi sé því hin eina og sanna ástæða fyrir því að Hvalur hf fari ekki á slíkar veiðar í sumar. Ole segir:

„Falsfréttir um þessi mál hafa verið í gangi um nokkra vikna skeið, en þær byrjuðu á því, að Stöð 2 átti viðtal við skipstjórann á Hval 9, þann 4. júní sl. þar sem skiptjórinn skýrði frá því, að leyfi til langreyðaveiða hefði komið og seint, í lok febrúar, og því hefði undirbúningstími fyrir veiðar í sumar verið of skammur. Yrði því að fella niður veiðar.

Síðar breytti Hvalur hf skýringunni á niðurfalli veiða í það, að markaður fyrir langreyðakjöt hefði reynst erfiður, og því hefði verið hætt við veiðar. Erfiður markaður kann að vera til staðar, en það er þó ekki skýringin; Hvalur hf hefði heldur ekki getað veitt, þó markaður hefði verið góður, því veiðileyfi skorti og skortir.“

Ole Anton segir að afar brýnt sé að nákvæmar og réttar ástæður fyrir niðurfalli langreyðaveiða við Ísland komi fram, m.a. af þessum ástæðum:

1.   Sjávarútvegsráðherra, forsætisráðherra og ríkisstjórn eiga rétt á því, að um þetta viðkvæma og mikilvæga mál sé fjallað á nákvæman og réttan hátt, eftir að þessir aðilar höfðu sætt mikilli og harðri gagnrýni fyrir setningu reglugerðarinnar í febrúar, bæði hérlendis og víða um heim.

2.   Skv. nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins, er yfirgnæfandi fjöldi

ungra Íslendinga og meira en helmingur landsmanna á móti hvalveiðum. Allt þetta fólk á rétt á því að vita, að þegar á reyndi og til kom, veittu stjórnvöld ekki nýtt leyfi til langreyðaveiða.

Þetta er mikið tilfinningamál fyrir stóran hluta landsmanna, og ætti fjölmiðlum að vera sú skylda ljós, að flytja verði nákvæmar og réttar fréttir af þessu máli.

3.   Í júlí í fyrra mótmælti 41 þjóð, þar á meðal allar okkar helztu vina- og viðskiptaþjóðir, framhaldandi langreyðaveiðum við Ísland þá. Allar þessar þjóðir, svo og allir aðrir – ekki sízt unga fólkið víða um heim, sem lætur nú í vaxandi mæli til sín heyra og taka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd, eiga líka rétt á því, að fá að vita hið sanna í málinu.

4.   Útflutningsatvinnuvegir landsins, sem hafa í mörgum tilvikum átt undir högg að sækja á erlendum mörkuðum, líka í ferðaþjónustu, vegna hvalveiða Íslendinga, eiga ennfremur rétt á, að sannleikurinn um niðurfall hvalveiða komi skýrt fram.

5.   Í þágu allra landsmanna, ímyndar landsins og orðspors þess, í þágu merkisins Íslands, er líka nauðsynlegt og brýnt, að það komi greinilega fram, að ráðamenn landsins hafi horfið frá frekari leyfisveitingum til langreyðaveiða.

Ole Anton heldur áfram: „Varðandi endanlega stöðvun hrefnuveiða við landið, þá er rétt ástæða þess sú, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá sjávarútvegsráðherra, útvíkkaði griðasvæði hrefna á Faxaflóa í þeim mæli, áður en hún lét af embætti 2017, að hrefnuveiðar eru ekki lengur arðbærar.“

Ole Anton segir að það séu því stjórnvöld sem hafi stöðvað hvalveiðar Íslendinga eftir að hinar umdeildu veiðar hafa staðið yfir meira og minna síðustu sautján ár. Ole Anton segir:

„Síðast nú í dag (gær) sá ég á ARD, helztu sjónvarpsstöð Þýzkalands, sem byggja á þeim falsfréttum, sem í gangi hafi verið á Íslandi; var þar skýrt frá því í aðalfréttatíma, kl. 20:00, að langreyðaveiðar verði ekki stundaðar á Íslandi í sumar, þar sem leyfi hafi komið of seint og markaðir fyrir hvalkjöt séu erfiðir. Það fara engar langreyðaveiðar fram í ár fyrst og fremst vegna þess, að sjávarútvegsráðherra, forsætisráðherra og ríkistjórnin veittu ekkert leyfi til slíkra veiða,“ segir Ole Anton og bætir við að lokum: „Eiga stjórnvöld heiður skilinn fyrir, að taka af skarið í málinu með þessum hætti, að mati undirritaðs.“

Nýjast