Of lítið framboð af lyfjum hér á landi – Lágt verð og hár skráningarkostnaður

Of lítið framboð af lyfjum hér á landi – Lágt verð og hár skráningarkostnaður

Framboð á lyfjum hér á landi er einungis þriðjungur af því sem þekkist á Norðurlöndunum. Lyfjaverð telst mjög lágt hér á landi og telur hagfræðingur að þörf sé á að endurskoða verðlagshömlur sem settar eru á lyf. Læknar og lyfjafræðingur segja auk þess kostnað við skráningu lyfja óþarflega mikinn. Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Þar er vitnað í nýja skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem fjallað er um lyfjamarkaðinn hér á landi. Í skýrslunni segir að lyfjaverð á Íslandi hafi lækkað síðan í byrjun 21. aldarinnar og að gögn frá Hagstofunni bendi til þess að árið 2018 hafi íslenskir neytendur greitt um helmingi minna fyrir skammt af lyfjum en árið 2003.

Samkvæmt skýrslunni er lyfjaframboð hér á landi aðeins þriðjungur af lyfjaframboði Norðurlandanna. Ástæðan fyrir því er sögð vera verðlagshamlanir.

Ágúst Arnórsson, hagfræðingur og einn af höfundum skýrslunnar, segir að fyrirkomulag sem er hér við lýði og er ætlað að tryggja viðráðanlegt verð lyfja hafi meðal annars stuðlað að minna framboði á lyfjum. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að Lyfjagreiðslunefnd ríkisins ákveður verslunarálagningu á lyfseðilsskyldum lyfjum, bæði í heildsölu og smásölu.

„Þetta er klárlega kerfi sem þarf að endurskoða. Það að lyfjaverð sé svona fast veldur ýmsum vandkvæðum. Það þarf að rukka fyrir lyf og framleiðendur munu ekki skrá lyf hér á landi nema þau hagnist á því.  En með  núverandi fyrirkomulagi er verðið á þeim lyfseðilsskyldu lyfjum sem í boði eru keyrt niður. Því þarf að skoða hvort það megi ekki bara leyfa fyrirtækjunum að rukka meira fyrir þau,“ segir Ágúst.

Að hans sögn hafa heildsalar bent á að í þessu kerfi sé erfitt að skrá ný og dýr lyf og því séu sumar meðferðir sem þörf sé á einfaldlega ekki í boði. „Síðan spilar líka inn í að Ísland er mjög lítill markaður og það eru því tiltölulega fáir sem þurfa á hverju lyfi að halda. Því gæti verið sniðugt að koma á sameiginlegu útboði fyrir lyf á Norðurlöndunum eins og ráðuneytið er með til skoðunar.“

Áhyggjur af lyfjaskorti

Jörundur Kristinsson heimilislæknir er á meðal þeirra sem hefur þungar áhyggjur af lyfjaskorti og finnst sem stjórnvöld þurfi að fara að gera eitthvað í málinu. „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu. Þessi lyfjaskortur hefur meðal annars valdið því að í sumum tilvikum hafa sýklalyf með breiða virkni verið notuð í stað sérvirkra[,] sem getur ýtt undir sýklalyfjaónæmi.“

Salóme Ásta Arnardóttir, formaður félags íslenskra heimilislækna, er sammála því að lyfjaskortur sé mikið vandamál hérlendis. „Það hafa verið uppi hugmyndir að koma á sameiginlegu útboði á lyfjum á Norðurlöndunum og mér þykir það vera mjög spennandi hugmynd.“ Þrátt fyrir óþægilega stöðu segir hún að hætta muni ekki skapast. „Þetta skapar aðallega mikil óþægindi og vesen bæði fyrir sjúklinga og lækna.

Salóme kallar líkt og Jörundur eftir aðkomu stjórnvalda. „Þetta er eitthvað sem stjórnvöld þyrftu að skoða og finna lausn á.“

Lágt lyfjaverð og hár skráningarkostnaður

Jörundur segir það hugsanlegt að framleiðendur telji ekki hag sinn í því að skrá lyf hér á landi vegna lágs verðs. „Það er hugsanlega rétt því ef lyfjaverð væri hærra þá sæju framleiðendur þessara lyfja sér hag í því að bjóða upp á þau hér á landi. Svo gæti smæð markaðarins einnig spilað inn í. Svo má ekki gleyma þeim mikla kostnaði sem fylgir því að hafa lyf skráð. Þetta skapar mikinn vanda fyrir bæði lækna og sjúklinga og er virkilega tímafrekt.“

Ágúst tekur undir þau orð Jörundar að það fylgi mikill kostnaður við skráningu lyfja hér á landi, og að mögulega þyrfti að taka þetta til skoðunar.

Ólafur Adolfsson, lyfsali hjá Apóteki Vesturlands, er sömuleiðis sammála því að þessi kostnaður sé of hár. „Það er mikill kostnaður við skráningu lyfja hér á landi. Það þarf til að mynda að þýða alla fylgiseðla með lyfjum yfir á íslensku. Síðan þarf fylgiseðill að vera í hverri seldri pakkningu sem er að mínu mati óþarfi því þessar upplýsingar er hægt að nálgast á netinu.“

Nýjast