Jóhann er 86 ára og bjargaði mannslífi fyrir tilviljun: „Djöfull er þetta leiðinlegt, nú fer ég inn á golfvöll.“

Jóhann er 86 ára og bjargaði mannslífi fyrir tilviljun: „Djöfull er þetta leiðinlegt, nú fer ég inn á golfvöll.“

Jóhann Sveinbjörnsson, 86 ára og er búsettur á Seyðisfirði. Hann var valinn Austfirðingur ársins eftir að hafa bjargað mannslífi. Hann tók þá örlagaríku ákvörðun að fara frekar í golf en að horfa á sjónvarpið. Þar heyrði hann unga konu hrópa í angist sinni á hjálp. Hún hafði hrapað í fjalli fyrir ofan völlinn og slasast alvarlega. Jóhann segir í samtali við Austurfrétt:

„Það var hrein tilviljun sem réði því að ég var úti á velli. Ég hafði farið í Egilsstaði og yfir á Reyðarfjörð um daginn og settist við sjónvarpið til að horfa á fréttir. Ég var búinn að koma mér vel fyrir í sófanum hér heima þegar, upp úr klukkan átta um kvöldið, byrjar þáttur sem mér líkaði ekki. Ég hugsaði með mér: „Djöfull er þetta leiðinlegt, nú fer ég inn á golfvöll.“

Jóhann nam staðar og kallaði til baka og fékk svar. Hann var þó ekki viss um hvort um væri að ræða hljóð í fugli eða um mannsrödd væri að ræða.

„Mér fannst ekki vera hægt að ganga hjá því ef einhver væri í vandræðum. Ég var með síma en vildi ekki hringja í Neyðarlínuna því ég hélt þetta væru fuglar. Ég keyrði því út í bæ, heim til lögreglumannsins og fékk hann með mér inn eftir. Við gengum upp eftir þar sem ég hafði heyrt í konunni og hóuðum upp í fjallið. Við fengum svar til baka. Við vorum búnir að kalla svolitla stund og hlusta á hana þegar okkur kom saman um að þetta væri mannsrödd. Þá tók hann upp símann og hringdi í Neyðarlínuna.“

Í ljós kom að um konu frá Sviss var að ræða sem hafði legið alvarlega slösuð á syllu í hlíðinni. Hún var orðin mjög köld þegar henni var bjargað.

Jóhann fékk síðasta haust kort frá svissnesku konunni þar sem hún þakkar honum.

„Þá var hún komin til Sviss. Hún sagðist vera að byrja að læra að ganga aftur.“

Hér má lesa ítarlegt viðtal við Jóhann á Austurfrett.is.

Nýjast