Hrefna er látin: „Hún var góð manneskja“

Hrefna er látin: „Hún var góð manneskja“

Hrefna Sigvaldadóttir, fyrrverandi skólastjóri Breiðagerðisskóla, lést á Droplaugarstöðum síðastliðinn sunnudag, tæplega níræð að aldri. Hrefna var fædd í Reykjavík 21. mars 1930. Hrefna var ógift og barnlaus. Hún hafði sterkar skoðanir á stjórnmálum og tók strax þátt í slíku starfi á háskólaárum sínum. Þá var hún virtur kennari. Þá var hún einnig meðal fyrstu kvenna sem var ráðin skólastjóri. Greint er frá andláti Hrefnu í Morgunblaðinu í dag.

Hrefna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Hún byrjaði í lögfræði við Háskóla Íslands, en fann fljótt að hugur hennar stóð til kennarastarfa. Hún hóf því nám í stúdentadeild Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist kennari 1958. Hrefna hóf þegar störf sem kennari við Breiðagerðisskóla og var þar kennari, yfirkennari og skólastjóri frá 1958 til 1996.

Hrefna sat í stjórn Stéttarfélags barnakennara í Reykjavík 1964-1967.

Þegar Hrefna var ráðin skólastjóri var hún meðal fyrstu kvenna sem ráðnar voru skólastjórar við barnaskóla í borginni.  Skólinn var mjög fjölmennur fyrstu 20 árin og voru flestir nemendur skólaárið 1963-1964 eða 1399.

Skólinn var í nokkur ár þrísettur, þ.e. þrír bekkir notuðu sömu stofuna dag hvern, en einnig var kennt á laugardögum.

Gunnar Þorsteinsson, oft kenndur við Krossinn minnist Hrefnu á Facebook. Hann segir:

„Hrefna Sigvaldadóttir er látin, en hún var kennari minn í barnaskóla. Hún var afburðakennari og góð manneskja. Hún lagði sig fram við að koma nemendum sínum til manns.

Ég er þakklátur fyrir að hafa notið leiðsagnar hennar í gegnum allan barnaskólann.

Hún var metin að verðleikum og varð síðar skólastjóri Breiðagerðisskóla. Blessuð sé minning hennar.“

Nýjast