Halldóra: Popúlískir leiðtogar nýta fátækt til að kynda undir hræðslu og hatur

Halldóra: Popúlískir leiðtogar nýta fátækt til að kynda undir hræðslu og hatur

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði í ræðu sinni í kvöld að Píratar hefðu frá stofnun kallað eftir kerfisbreytingum og enn væri þörf á að gera breytingar í íslensku samfélagi. Byggja yrði nýtt líkan í staðinn fyrir það úrelta, nýjan veruleika. Þá tilkynnti Halldóra að hún hefði róttæka sýn á framtíðina. Halldóra sagði:

„Ímyndum okkur að þurfa ekki að takmarka líf okkar á þeim forsendum að þurfa að afla tekna, að ná endum saman. Ímyndum okkur að búið væri að tryggja grunnþarfir eins og mat, klæði, skjól og heilsu, hvernig myndum við nýta tímann? Hvað er það fyrsta sem okkur dettur í hug?

Hvort sem draumurinn er að opna fyrirtæki, þróa nýja hugmynd, helga lífið listinni eða hjálpa öðrum - hversu mörg tækifæri fáum við til þess? Hversu mikinn tíma og orku eigum við afgangs eftir átta tíma vinnudag og tvo tíma í umferð við að mæta til vinnu, sækja börnin og sinna erindum?“

Bætti Halldóra við að þau sem hefðu ekkert bakland eða efnahagslegt öryggisnet gæti álagið sem fylgi fátæktinni verið næst sem óbærilegt. Halldóra sagði: „Ímyndið ykkur að geta lagt þá byrði niður og stigið fram létt á fæti og óhrædd inn í framtíðina.

Ímyndum okkur hvernig það væri að lifa við þá vissu að jafnvel þótt okkur mistakist, þá verður hægt að borga reikningana, grunnframfærslan sé tryggð. Möguleikinn á að gera mistök og læra af þeim er mun meira virði en við gerum okkur grein fyrir. Farvegurinn að sannri þekkingu er hlaðinn mistökum og stöðugri aðlögun að þeim, aftur og aftur og aftur.

Hvar værum við í dag ef við byggjum við raunverulegt frelsi? Þá tegund frelsis sem einvörðungu getur sprottið af getu okkar til að taka ákvarðanir byggðar á því sem við viljum gera til að dafna, í stað þess sem við neyðumst að gera til að lifa af.“

Þá sagði Halldóra að hún deildi sömu áhyggju með Katrínu Jakobsdóttur og óttaðist uppgang popúlískra hreyfinga sem grafi undan mannréttindum og ýti undir fyrirlitningu almennings á stjórnmálum og lýðræðinu. Halldóra sagði: „Ég deili áhyggjum forsætisráðherra af þessari þróun. Það verður brýnna með hverju árinu sem líður að takast á við rót vandans. Sagan sýnir okkur hversu dýrkeypt aðgerðarleysið er.“

Halldóra bætti við að Píratar hefðu lagt mikla áherslu á að tryggja öllum grunnframfærslu: „En er rótin ekki einmitt að stór hluti heimsbyggðar býr við efnahagslegt og félagslegt öryggisleysi? Öryggisleysi sem popúlískir leiðtogar og hreyfingar nýta, kynda undir hræðslu og hatur og hvetja til niðurrifs núverandi kerfa án þess að móta neina sýn um hvað á að koma í staðin. Það er engin framtíðarsýn þarna, bara sviðin jörð og einhverskonar óljós skilaboð um að hverfa aftur til fortíðar.“

Nýjast