María og Áslaug í áfalli: „Héldum að við værum að missa hana“

María og Áslaug í áfalli: „Héldum að við værum að missa hana“

Mynd: Skjáskot úr fréttum RÚV
Mynd: Skjáskot úr fréttum RÚV

„Miðað við það sem við upplifðum, það viljum við ekki upplifa aftur og við viljum ekki að neinn upplifi. Við héldum að við værum að missa hana, á tímabili, af því að hún fær þarna þrjú flog á nokkrum klukkutímum“ segir María Rós Magnúsdóttir.

„Það á enginn að þurfa á horfa upp á barnið sitt kveljast svona. Við lentum ekki í slysi. Við vorum bara í útilegu,“ segir Áslaug Fjóla Magnúsdóttir.

María og Áslaug eiga það sameiginlegt að hafa þurft að horfa upp á dætur sínar liggja alvarlega veikar inni á sjúkrahúsi með bráðanýrnabilun. Dæturnar, sem eru sjö og þriggja ára, eru hetjur að sögn mæðra þeirra. María og Áslaug ræddu við fréttastofu RÚV í gær.

„Þau eru bara hetjur, krakkarnir okkar,“ segir María og Áslaug samsinnir því.

María og Áslaug fóru báðar með dætur sínar í heimsókn til Efstadals II um miðjan júní. Þar fengu stúlkurnar sér ís og umgengust kálfa á svæðinu. Mæðrunum þykir báðum að grípa hefði átt fyrr til aðgerða að ferðaþjónustubænum, en um tvær vikur liðu frá því að fyrsta barnið greindist þar til gripið var til aðgerða. Þá voru kálfarnir settir í sóttkví og matvælasala stöðvuð, eftir að eftirlitsaðilar töldu fullsannað að smitið hefði komið frá bænum

„Þeim var greinilega byrjað að gruna eitthvað, en þeir hefðu átt að bregðast miklu fyrr við en þeir gerðu. Þetta skapar reiði og pirring. Allavega líður mér þannig,“ segir María.

Hún vill fá skaðabætur vegna málsins. „Ég hefði viljað fá einhverjar skaðabætur og [að] okkur [yrði] bætt þetta einhvern veginn upp. Það finnst mér allavega,“ segir María.

Áslaug segist ekki komin svo langt en samsinnir því að grípa hefði átt fyrr til aðgerða. „Við erum ekki farnar að hugsa neitt svo langt. Þetta hefði ekki þurft að fara svona,“ segir hún og bætir við:

„Næsta skref er að fá nýru dóttur minnar til að virka og í framhaldi af því þá hugsum við um eitthvað sem viðkemur því að sækja rétt okkar.“

Á batavegi

María og Áslaug segja að dætur þeirra séu nú á batavegi og að þær séu afar þakklátar starfsfólki á spítalanum. „Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að vinna úr hægt og rólega. Hún er náttúrlega sjálf í rosalegu sjokki. Hún sagði við mig í gær að þetta hefði verið næstum eins og í draumi. Hún hefði svifið í gegnum þetta,“ segir María um sjö ára dóttur sína.

Áslaug segir læknana vongóða um að þriggja ára dóttir hennar nái sér. „Áfallið kemur eftir á. Hennar batahorfur, það kemur í ljós en þeir eru vongóðir um það að hún eigi eftir að ná sér. Við vonum að það verði engin eftirköst en tíminn verður að leiða það í ljós.“

Tilfellin nú orðin 12

Tvö börn til viðbótar greindust með E. coli sýkingu í gær og því eru tilfelli sýktra barna nú samtals orðin tólf. Dætur Maríu og Áslaugar fengu báðar bráðanýrnabilun en auk þeirra var fimm mánaða drengur lagður inn á Barnaspítala Hringsins, sömuleiðis með nýrnabilun. Hann smitaðist af bróður sínum og var greint frá því í gær að líðan hans færi versnandi.

Tvö af börnunum 12 eru nú á spítala, dóttir Áslaugar og fimm mánaða drengurinn. Dóttir Maríu, sem var fyrsta barnið sem fékk bráðanýrnabilun, hefur verið útskrifað og er undir eftirliti utan spítala, ásamt hinum níu börnunum sem hafa sýkst af E. coli bakteríunni.

Viðar Örn Eðvarðsson, sérfræðingur í nýrnalækningum, talaði um E. coli faraldur í fréttum RÚV í fyrrakvöld.

Nýjast