Borgarstjóra svarað vegna frímiðanna: Staðreyndir málsins eru eftirfarandi - Hlustaðu á upptökuna

Borgarstjóra svarað vegna frímiðanna: Staðreyndir málsins eru eftirfarandi - Hlustaðu á upptökuna

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík gagnrýnir frétt Hringbrautar þar sem fram kom að Dagur hefði þegið þrjá svokallaða Artist Gold VIP boðsmiða á tónleikahátíðina Secret Solstice. Í frétt Hringbrautar kom fram að miðaverð á hvern miða sem höfðu samskonar aðgang að tónleikasvæðinu voru um 150 þúsund krónur. Heildarverðmæti miðanna sem borgarstjóri þáði voru því um 450 þúsund krónur.

Bæði Dagur og Víkingur Heiðar Arnórsson framkvæmdastjóri Secret Solstice hafa gagnrýnt fréttaflutning Hringbrautar í gær og hefur ratað í fréttir í dag. Víkingur Heiðar segir í tilkynningu í gær að leggja að jöfnu í verði svokallaða Óðinsmiða við Artist Gold VIP sé fjarstæðukennt. Dagur heldur fram að fréttin sé villandi og framsetning röng og viljandi reynt að gera hluti tortryggilega. Frétt Hringbrautar er hins vegar unnin upp úr tölvupóstsamskiptum við borgarstjóra sem og samtali við framkvæmdastjóra hátíðarinnar. Þar kemur fram að ekkert er við frétt Hringbrautar að athuga.

Vegna yfirlýsingar Víkings Heiðars og svo Dags B. borgarstjóra birtir Hringbraut staðreyndir málsins sem og hljóðupptöku við Víking þar sem framkvæmdastjórinn í samtali við blaðamann Hringbrautar leggur miðanna að jöfnu. Þá segir Víkingur að borgarstjórinn hafi fyrst ekki haft aðgang að veigum sem í boði voru á hátíðinni en seinna í samtalinu hafði borgarstjórinn einnig aðgang að því svæði.

Staðreyndir málsins eru eftirfarandi:

Dagur B. Eggertsson fékk þrjá miða, ekki einn eins og öllum hinum borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar var boðið upp á. Þetta kemur fram í tölvupósti frá borgarstjóra.  

Miðarnir eru ætlaðir til að sinna eftirlitsskyldu. Aðstoðarmaður Dags fékk einn miða. Dagur hefur ekki greint frá af hverju hann þurfti þrjá miða til að uppfylla eftirlitsskyldu sína.

Pawel, borgarfulltrúi Viðreisnar. Skráði miðana í hagsmunaskráningu sína sem hann heldur utan um sjálfur og er opin almenningi. 

Enginn borgarfulltrúi fékk aðgang inn á sérstakt VIP svæði sem borgarstjóri fékk aðgang að.

Ef einstaklingur vildi fá aðgang að sama VIP svæði og hitta m.a. helstu stórstjörnur hátíðarinnar, líkt og borgarstjóri hafði kost á, þurfti viðkomandi að greiða 150 þúsund krónur fyrir miðann, þótt hann hefði eingöngu mætt bara á sunnudagskvöldið og ekki fengið sér mat og drykk.

Miðar sem aðrir borgarfulltrúar fengu eru verðmetnir á rúmlega 30 þúsund krónur hver miði, en þeir miðar tryggja ekki aðgang að VIP svæðinu sem borgarstjóri hafði aðgang að. Þetta hafa nokkrir borgarfulltrúar staðfest.

Hvorki Dagur né skipuleggjendur hátíðarinnar hafa sjálfir gefið út hversu mikið þeir verðmeta miðanna, þar sem þeir telja þetta alls ekki koma nálægt þeirri upphæð sem nefnd er í fréttinni. Í fréttinni er hvergi fullyrt um að miðarnir kosti 150 þúsund, að miðar með samskonar aðgangi að hinum ýmsu svæðum kosti allt að 150 þúsund krónur og kemur skýrt fram í fyrirsögn fréttarinnar. Í fréttinni segir að Dagur hafi ekki fengið aðgang að ókeypis drykkjum en sé hlustað á upptökuna er Víkingur tvísaga, þar sem hann segir í fyrstu að borgarstjóri hafi ekki haft slíkan aðgang en síðar í samtalinu að hann hafi haft aðgang að því svæði.  

Í báðum yfirlýsingum Dags og Víkings er ekki bent á neina eina staðreyndarvillu í fréttinni. Eingöngu er einblínt á verðgildi miðanna sem að kom fram í samtali blaðamanns við Víking að hann teldi að um sambærilega miða væri að ræða.  

Orðrétt sagði Víkingur, framkvæmdastjóri Secret Solstice við blaðamann Hringbrautar:

Blm: Þetta voru miðar voru eins og listamenn fengu, eru það ekki Súper Óðin miðar?

Víkingur: „Jú einmitt, ef hann fékk miða eins og listamennirnir fengu, þá heitir það artist Gold, ekki allir listamenn, þetta eru headlinerarnir, semsagt þekktu  listamennirnir og og og, semsagt þarna, þá kemst hann á bakvið en hann fær ekki semsagt mat og drykk og dót eins og Óðinn miðarnir fá.“

Blm: „Ókei en þetta eru samt basacally sömu miðar fyrir utan matinn og drykkina?

Víkingur: „Já basacally, það er bara minni þjónusta, en þá kemst hann inn á svona hálfpartinn baksviðs, ekki þar sem headlinearnir eru fyrir og eftir gigg, en á barinn og þarna þar sem maturinn er, sem listamennirnir hafa aðgang að og geta nýtt sér þegar þeir eru ekki inn í sko klefunum sínum sko.“ 

Blm: En hann hafði aðgang að þessu VIP svæði ? Hann var inn á þessu VIP svæði fyrir listamennina ?

Víkingur: „Ef hann segir að hann fékk þessi armbönd þá er það rétt sko. Ég man ekki hvort hann hafi fengið armböndin eða ekki.“ 

Blm: Hann segir að þetta voru miðar eins og listamenn fengu. 

Víkingur: „Já þá er það bara rétt.“ 

Nýjast