Þetta verður þú að gera til að léttast! Megrunaráð sem hafa gert allt vitlaust á Netinu og allt sem er bannað

Þetta verður þú að gera til að léttast! Megrunaráð sem hafa gert allt vitlaust á Netinu og allt sem er bannað

Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Hún heldur úti vinsælli síðu þar sem hún fjallar um hreyfingu, mataræði og margt fleira. Í dag dregur hún sundur og saman í háði öll þau megrunarráð sem beint er að fólki en iðnaðurinn veltir milljörðum. Við gefum Röggu orðið, þetta er það sem þú þarft að gera til að léttast og svo annað sem er bannað:

Borða ketó en passa kolefnissporið og ekki borða dauðar skepnur.
Fara á kjötkúrinn og borða bara dauð dýr en nauðsynlegt að vera plöntumiðaður. En þá deyrðu úr B12 skorti. Borða bara sojakjöt en það er svo unnin vara.
Prótínsjeikar þrisvar á dag en alls ekki borða neitt duft.

Fiskur er meinhollur og sprengfullur af Omega sýrum en líka öllu kvikasilfrinu.
Bara borða grænmeti. En ekki kartöflur og maís út af öllum kolvetnunum. Og alls ekki gulrætur.

Sykur er meira ávanabindandi en heróín gerir þig feitan en nauðsynlegur eftir æfingu.
Ávextir eru hollir en stútfullir af sykri.
Bananar eru ávöxtur Satans út af öllum sykrinum og bestir fyrir æfingu.

Verður að lyfta lóðum og borða allt prótínið.
En ekki of mikið prótín út af nýrunum.
Verður að hlaupa en það er vont fyrir hnén.
Bara utanvegarhlaup en það er svo öfgakennt.
Fara í Crossfit en það rústar bakinu.

Salta matinn með sjávarsalti en alls ekki salta út af blóðþrýstingnum.

Fara snemma að sofa en ekki sofa of mikið.
Hugleiða og gera jóga á morgnana en eiga gæðastund með börnunum fyrir skóla.
Fara í kalda sturtu og heitan pott og sjósund og drekka kakó í seremóníu.
Borða eftir lithimnu, hárlit, skóstærð og genamenginu en hlusta á líkamann og borða það sem fer vel í maga.

Ekki svelta þig nema það heiti að fasta.

Borða sex sinnum á dag en ekki arða upp í munninn í sextán tíma.
Alltaf að borða morgunverð en sleppa honum ef þú ert að fasta.
Borða á tveggja tíma fresti en fasta fram að hádegi og borða bara löns og dinner.
En engin kolvetni eftir klukkan sjö því það breytist í fitu með magískum mekanisma.

Drekka fjóra lítra af vatni en ekki drekka of mikið vatn til að passa nýrun.

Farðu út í sólina til að fá D-vítamín en þá færðu húðkrabbamein.
Vertu bara inni í myrkri en það er vont fyrir augun. Bara ekki borða kolvetni í myrkrinu.

Nýjast