Stundarsigur í lögbannsmálinu

Dómari synjaði kröfu Glitnis í lögbannsmálinu í dag:

Stundarsigur í lögbannsmálinu

Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í dag kröfu Glitnis HoldCo um að staðfest yrði með dómi lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík media í október.
 
Að auki vísaði dómurinn frá kröfu um að Stundin og Reykjavík media yrðu að afhenda Glitni gögn sem þeir hafa undir höndum. Fjölmiðlarnir höfðu fjallað um viðskipti Bjarna Benediktssonar, núverandi fjármálaráðherra, fyrir hrun og byggt á gögnum úr Glitni.

 

Í dómnum segir að í umfjöllun Stundarinnar hafi ekki verið "gengið nær einkalífi þeirra einstaklinga sem um ræddi en óhjákvæmilegt hefði verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðaði almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa“.

Dómarinn sagði að það hvernig gögnin komust í hendur fjölmiðlanna breyttu engu um það, og ekki heldur að í þeim væru upplýsingar sem falla undir bankaleynd.

"Það er auðvitað gleðiefni að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðir sýslumannsins, að setja lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík media hafi verið ólögmæt,“ sagði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, í viðtali við RÚV í hádeginu þegar dómurinn féll, en hún bætti við. "Hins vegar er það þannig að við sætum enn lögbanni og munum gera það að minnsta kosti þar til áfrýjunarfrestur rennur út. Það eru allavega þrjár vikur til viðbótar. Svo sjáum við hvað Glitnir gerir. Ef þeir áfrýja munum við áfram sæta lögbanni þar til dómur fellur í því máli.“

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri og framkvæmdastjóri Stundarinnar sagði í sama miðli að lögbannið gæti gilt lengi enn: "Við höfum verið í þrjá og hálfan mánuði í ólögmætu lögbanni sem mun halda áfram, lögum samkvæmt, í að minnsta kosti þrjár vikur. Ef þrotabú bankans kýs að áfrýja getum við átt von á því að lögbannið gildi í allavega ár í viðbót,“ sagði Jón Trausti. „Okkur finnst það aðallega óásættanlegt gagnvart almenningi og upplýsingarétti almennings. Þetta snýst ekkert um okkur eða aðila þessa máls. Þetta snýst bara um reglur samfélagsins, sem eru óeðlilegar í vestrænu lýðræðisríki.“

Nýjast