Sigurður ósáttur: „Við þvagleggjanotendur vorum aldrei spurðir hvað okkur finnst best“

Sigurður ósáttur: „Við þvagleggjanotendur vorum aldrei spurðir hvað okkur finnst best“

Sigurður Halldór Jesson hefur undanfarin tíu ár þurft að notast við þvaglegg. Fjórum til sex sinnum á dag þræðir hann legginn sjálfur inn að þvagblöðru til þess að tæma hana og fljótlega fann hann út úr því hvaða tegund þvagleggja hentuðu honum best.

Í viðtali við Fréttablaðið segir Sigurður að í nóvember á síðasta ári hafi hann fengið tilkynningu þess efnis að sú tegund stæði ekki lengur til boða. Þá segir hann Sjúkratryggingar hafa greint frá því að fagnefnd hafi metið þá leggi sem í boði voru og talið þá standast öryggiskröfur.

Sigurður kveðst ósáttur við niðurstöðurnar og segir hann Sjúkratryggingarnar ekki hugsa um þægindi notandans. Þeir leggir sem Sigurður neyðist til þess að nota í dag séu mikið lengri og óþægilegri.

Liður í sparnaði?

„Það er erfiðara að nota þá. Þeir bogna og beygjast þegar maður er að þræða upp í. Hinn var stinnari þannig að það var auðveldara að stýra honum,“ segir Sigurður. Þá segir Sigurður að eftir kvartanir frá sérfræðilækni og Sjálfsbjörgu á síðasta ári hafi Landspítalinn og Sjúkratryggingar Íslands greint frá því að ekki hafi borist gilt tilboð í þá leggi sem Sigurður notaði áður og því ekki heimild til þess að kaupa hana.

Þá segir Sigurður að hann hafi heyrt um að leggirnir sem hann notaði áður hafi verið dýrari og átti hafi að spara. Árlega kostar Sigurður ríkið rúmlega eina milljón krónur þar sem Sjúkratryggingar greiða þvagleggi niður fyrir notendur þeirra.

„Það sem ég set helsta spurningarmerkið við er að við þvagleggjanotendur vorum aldrei spurðir hvað okkur finnst best. Ég geri ekki lítið úr reynslu bæklunarhjúkrunarfræðinga og bæklunarlækna en þeir eru nú kannski ekki að nota þessar græjur alla daga,“ segir Sigurður sem stofnað hefur vefsíðu og lokaða síðu á Facebook þar sem notendur þvagleggja geta rætt saman um sameiginlega hagsmuni.

Hluti af þeim ábendingum sem Sigurður vill koma áleiðis til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands eru þær að erfiðara sé að koma umbúðum þvagleggjarins fyrir, umbúðirnar eigi það til að opnast illa, leggurinn sjálfur sé mun mýkri og erfiðara sé að hitta á þvagrásaropið, þvagið frussast meira út um þvaglegginn, næturpiss tekur langan tíma, umbúðirnar séu fyrirferðameiri sem vekur oft upp spurningar og erfiðara að ferðast langt vegna plássleysis og að ekki sé auðvelt að nota þvaglegginn í þröngum rýmum. Þá nefnir Sigurður einnig að flóknara sé að endurvinna þá þvagleggi sem séu í boði núna.

Nýjast