Samræður á Klaustri ekki taldar einkasamtal

Samræður á Klaustri ekki taldar einkasamtal

Mynd: Fréttablaðið
Mynd: Fréttablaðið

Siðanefnd Alþingis hefur skilað forsætisnefnd áliti vegna Klaustursmálsins. Komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að samræðurnar sem fóru fram á Klaustur bar milli sex þingmanna, fjögurra úr Miðflokknum og tveggja úr Flokki fólksins, geti ekki talist sem einkasamtal. Vísir.is greinir frá.

Er það mat nefndarinnar að ummælin sem heyra megi á upptökum Báru Halldórsdóttur falli undir gildissvið siðareglna þingsins. Þó er tekið fram að með áliti siðanefndar sé ekki veitt álit á því hvort um brot á siðareglum hafi verið um að ræða.

Álitið var birt á vef Alþingis í gærkvöldi en var síðar fjarlægt. Í tilkynningu frá Miðflokknum segir að fráleitt væri að birta álitið áður en frestur til að skila andmælum rynni út þar sem slíkt gengi gegn stjórnsýslulögum og auk þess lægju fyrir nýjar og veigamiklar upplýsingar sem muni sýna að mat nefndarinnar sé byggt á röngum forsendum. Ekki er farið nánar út í hverjar þessar nýju upplýsingar eru.

Miðflokkurinn segir að fallist hafi verið á kröfu fjögurra þingmanna flokksins um að hætta við birtingu álitsins en álitið var þó sannarlega birt fyrir mistök á vef Alþingis klukkan 19:00. Bæði RÚV og Vísir vitnuðu t.a.m. beint í álitið með hlekki en eins og áður segir virkar hlekkurinn ekki lengur eftir að álitið var fjarlægt af vef Alþingis. 

Í tilkynningu Miðflokksins segir einmitt að áætlað hafi verið að birta álitið á vef Alþingis klukkan 19:00. Þrátt fyrir það heldur Miðflokkurinn því fram að pólitískt eðli málsins sé staðfest enn á ný, þar sem RÚV hafi birt frétt um álitið klukkan 19:20 í gærkvöldi og því sé það ljóst að mati flokksins að RÚV „hafi verið upplýst um innihald bréfsins.“ 

 

Nýjast