Niðurbrotinn og þjakaður Brynjar: Martröð í tískuverslun - Fær vefjagigt um leið og hann labbar inn í fatabúðir

Niðurbrotinn og þjakaður Brynjar: Martröð í tískuverslun - Fær vefjagigt um leið og hann labbar inn í fatabúðir

„Þar sem ég beið fyrir utan Massimo Dutti, sem er tískuverslun fyrir þá sem ekki vita, glitti í stóran hóp eiginmanna frá hinum ýmsu löndum á milli búðapoka sem þeir voru að passa. Þeir virkuðu margir mjög þjakaðir og sumir höfðu beðið meira og minna allan daginn.“

Þetta segir Brynjar Níelsson á Facebook. Hann hefur dvalið á Ítalíu með vinafólki. Kveðst Brynjar hafa tekið þá tali og karlmennirnir náð vel saman. Brynjar segir:    

„Veltum fyrir okkur hvort rétt væri að stofna félag eða samtök. Skiptar skoðanir voru uppi en við vorum allir samt sammála um að búðaráp kvenna væri hluti af feðraveldinu.“

Nokkrir taka þátt í umræðum undur innleggi Brynjars. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir:

„Ég hef nokkra reynslu af þessu. Þetta er alls ekki leiðinlegt og þú átt að njóta hverrar mínútu enda er á þessum veiðilendum maka okkar hægt að stunda miklar mannlífsrannsóknir og engin ástæða til að láta sér leiðast.“ Kona Páls er Marta María sem stýrir Smartlandi á vef Morgunblaðsins. Þá bætir Páll við:

„Ég veit fátt skemmtilegra en að koma mér vel fyrir og sjá vel haldið fólk beinlínis slást um töskur og tuskur í Guccibúðum með tryllingsglampa í augum. MMA bardagakeppnir eru leikur einn í samanburði við svoleiðis fjör. Góða skemmtun.“

Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra spyr þá hvort Brynjar mæli ekki helst með skóbúðum, þar séu þó stólar til þess að hvíla sig á.

Þá kveðst Brynjar fá eins konar vefjagigt um leið og hann labbi inn í búð, þá sérstaklega fatabúðir. Ólafur Þ. Harðarson stingur þá uppá að Brynjar bíði á nálægri krá, það sé einn meginkostur feðraveldisins. „Því lengri því betra,“ segir Ólafur.

Brynjar svarar:

„Vandamálið er að þegar ég fæ að bíða á barnum dregur mjög úr burðargetunni.“

Nýjast