Mamma hætti að borða til að flýta fyrir dauðanum: Tók hana 45 daga að deyja - „Ég var skelfingu lostin“

„Hún hafði verið lífsleið í nokkur ár, hún var alveg hraust en búin að missa sjón, bragð- og lyktarskyn. Hún vissi að að það stefndi bara í eina átt - í dauðann - en það gerðist ekki nógu markvisst að hennar smekk. Það sem hún óttaðist líka meira en dauðann var að verða veik og ósjálfbjarga.“

Þetta sagði Sæunn Kjartansdóttir í viðtali á Rás 1 er hún minnist móður sinnar Ástu Bjarnadóttur sem tók þá örlagaríku ákvörðun að hætta að borða til þess að flýta fyrir dauða sínum.

Hélt það tæki bara nokkra daga að deyja

Sæunn sendi nýverið frá sér bókina Óstýriláta mamma mín og ég þar sem hún skrifaði sögu móður sinnar Ástu. Hún segir móður sína hafa lifað skrautlegu lífi en í bókinni fjallar Sæunn meðal annars um alkóhólisma móður sinnar og þá ákvörðun að flýta fyrir dauða sínum.

Þegar Ásta tók ákvörðun um að hætta að borða bjó hún enn heima hjá sér og var hún bæði sjálfstæð og sjálfbjarga.

„Aðdragandinn var að hún hafði orðið lasin og misst lystina. Hún hafði verið slöpp og lystarlaus og borðaði lítið en þarna kviknar þessi hugmynd sem henni fannst rakin. Og hún hélt þetta tæki bara nokkra daga,“ sagði Ásta og minnist þess þegar móðir hennar hringdi glöð í dætur sínar til þess að tilkynna þeim þessa ákvörðun.

Sæunn sagði að þrátt fyrir að umfjöllunarefni bókarinnar sé á köflum erfitt hafi það ekki komið annað til greina en að hafa húmorinn að vopni.

„Það er ekki hægt að skrifa um mömmu öðruvísi. Hún var skemmtileg en líka erfið mamma. Litrík og töluvert sjálfhverf en ástrík og hlý við okkur systurnar.“

Ástandið var skemmtilegt

Ásta, móðir Sæunnar var frá Húsavík og eignaðist hún barn í lausaleik átján ára gömul sem þótti mikil skömm á þeim tíma. Hún tók þátt í ástandinu og var mikið hneykslast á því en sjálf sagði hún að ástandið hafi verið eitt skemmtilegasta tímabil ævi hennar.

Í viðtali við fréttamanninn Helga H. Jónsson sagði Ásta meðal annars: „Helgi minn. Ef það kæmu hingað fimmtíu þúsund hjúkrunarkonur eða fiskvinnslukonur, heldurðu að þið mynduð ekki setja brilljantín í hárið pússa dansskóna og gera ykkur svolítið til?“

Í bókinni greinir Sæunn frá því að móðir hennar hafi eignast elskhuga frá Bandaríkjunum sem hét Bill. Sá var þrjátíu árum eldri en hún sjálf og giftur. Hann vildi skilja við konu sína til þess að giftast Ástu en sjálf vildi hún ekki heyra á það minnst og að lokum hvatti Bill hana til þess að vera með öðrum manni.

Hún segir móður sína hafa gifst föður sínum og saman hafi þau eignast Sæunni og systur hennar þrjár.

„Ég held að það hafi verið besti tíminn í hennar lífi, hún var heima og hann sá um heimilið og verslaði í matinn. Á þeim tíma var hún pen og hugguleg og kunni sig.“

Drekkti sorgum sínum með áfengi

Hún segir þó allt hafa breyst þegar faðir sinn hafi látist aðeins 52 ára gamall. Þá hafi farið að halla undan fæti hjá móður hennar enda hafi hún aðeins verið 41 árs gömul og áfallið mikið.

„Mamma var rosalega dugleg, hún bretti upp ermar og fór að vinna úti en hún hafði engan stuðning í sorginni og enga burði til að takast á við hana. Hún missti besta vin sinn, fjárhagslegan stöðugleika og sjálfsmyndina. Ósómastimpillinn sem hafði farið af henni með því að giftast pabba kom upp aftur. Hún fór að drekka og gerði eitt og annað sem konur áttu ekki að gera á þessum tíma,“ útskýrði Sæunn í viðtalinu.

Ásta fór í meðferð og hætti að drekka, þar lærði hún að alkóhólismi væri ekki aumingjaskapur heldur sjúkdómur. Sæunn segist hafa verið hamingjusöm vegna tíðindanna en þegar hún fór að læra sálgreiningu hafi hún skipt um skoðun á sjúkdómsgreiningu móður sinnar.

„Seinna í mínu námi fékk ég annan skilning á alkóhólisma og ég hallast ekki lengur að þessari sjúkdómsgreiningu. Þetta er auðvitað sjúklegt ástand en ekki sjúkdómur sem þú færð upp úr þurru heldur sprottið af reynslu. Við rifumst um þetta. Henni fannst ég alveg vonlaus á köflum,“ sagði Ásta en viðurkennir að samband mæðgnanna hafi styrkst eftir að móðir þeirra lagði flöskuna á hilluna.

Hrædd en fegin

Líkt og fyrr sagði ákvað Ásta þegar hún var orðin 85 ára gömul að hún vildi ekki lifa lengur og tók hún upp á því að hætta að borða.

„Ég var auðvitað skelfingu lostin og hrædd en líka dálítið fegin. Það er líka eina ástæðan fyrir því að ég þurfti að skrifa mig út úr þessu því tilfinningarnar voru svo rosalega blendnar,“ sagði Ásta sem upplifði allan tilfinningaskalann þegar móðir hennar greindi henni frá ákvörðun sinni.

Hún segist hafa skammast sín fyrir að vera fegin en viðurkennir að maður stjórni ekki tilfinningum sínum.

„Þær koma bara. Það sem maður gerir við þær er það sem skiptir máli.“

Sæunn útskýrir feginleika sinn á þeirri staðreynd að móðir hennar hafði verið erfið síðustu árin.

„Hún var búin að sveifla okkur svo upp og niður og við vorum orðnar svolítið þreyttar á þessu óveðri í tilfinningalífinu sem tengdist henni. Hún vildi stjórna því hvað okkur fannst og hvernig okkur leið og það er kannski það sem maður þolir einna verst af því sem stjórnað er með. Þannig að að hluta til hugsaði maður já þetta er bara gott, hún er orðin leið og hún fær hvíld og við fáum frið.“

Viðurkennir Sæunn einnig að systurnar hafi orðið reiðar vegna ákvörðunarinnar.

„Þetta var svo mikil stjórnsemi. Þetta er hennar dauði en hún dró okkur samt inn í þetta. Maður var lítið að hugsa um annað en þetta á hverjum degi í mjög langan tíma.“

Ekki um stundarbrjálæði að ræða

Ákvað fjölskyldan því að ræða við heimspeking til þess að átta sig á því hvort þær væru að leyfa móður sinni að draga sig inn í meðvirkni og einnig hvort það væri glæpsamlegt að styðja hana í þessari ákvörðun.

„Þetta var algjörlega hennar vilji, það fór ekki á milli mála. Það var ekki annað í boði en að virða hennar vilja,“ sagði Ásta og var niðurstaðan sú að ekki væru um stundarbrjálæði að ræða heldur vel ígrundaða ákvörðun.

Móðir Sæunnar neitaði að flytja inn til Sæunnar né hinna systranna enda vildi hún halda reisn sinni fram á síðasta dag. Hún segir fjölskylduna hafa reynt sitt besta að lifa eðlilegu lífi en að það hafi verið skrítin tilfinning.

Tók hana 45 daga að deyja

Hún segir aðstæðurnar ekki hafa verið hefðbundnar heldur hafi þær mæðgur átt ljúfar stundir saman þrátt fyrir að sorgin vofði yfir þeim.

Ásta bað dætur sínar að hafa ekki áhyggjur af sér og greindi þeim frá því að sér liði vel. Eftir að hún hætti að borða tók það Ástu 45 daga að deyja. Hún var með fulla meðvitund en síðustu dagana var hún orðin máttfarin og kvalin og flutti til Sæunnar.

„Líffærin bara gefa sig og það þornar allt upp svo hún þurfti verkjalyf. Hún dreypti aðeins á vatni en það var það eina sem hún gerði, ef einhver heldur að þetta sé auðveld leið þá er það ekki og ég mæli ekki með þessu fyrir neinn sem vill deyja,“ sagði Sæunn í viðtalinu.

Í kjölfar andlátsins kom ekkert annað til greina en að hafa eftirmálana eftir hennar höfði. Upphaflega vildi Ásta enga jarðarför heldur bara erfidrykkju en féllst hún þó að lokum á það að fjölskylda og vinir fengju að kveðja hana með sínum hætti. Þá segir Sæunn ekkert annað lag hafa komið til greina við útgöngumarsinn heldur en lagið My way með Frank Sinatra. 

Viðtalið við Sæunni er hægt að hlusta á í heild sinni á vef RÚV með því að ýta hér.