Marta María: „Hvers vegna var ég að monta mig [...] Vá, hvernig fór ég að því að vera svona mikill plebbi“

Marta María: „Hvers vegna var ég að monta mig [...] Vá, hvernig fór ég að því að vera svona mikill plebbi“

„Hvers vegna viljum við láta allt líta betur út en það er í raun og veru? Hvers vegna segjum við ekki bara satt? Líf flestra væri til dæmis miklu einfaldara ef þeir myndu bara segja satt og rétt frá og leyna engu. Samt gerum við það ekki. Við erum alltaf að reyna að halda einhverri glansmynd á lofti sem stenst varla skoðun.“

Þetta segir Marta María Jónasdóttir ritstjóri Smartlands í leiðara í dag. Þar segist Marta María vera sek um það, eins og svo margir að skapa glansmynd af lífi sínu á samskiptamiðlum, líkt og á Facebook og Instagram. Tiltekur hún nokkur dæmi. Hún segir:

Skoðum samfélagsmiðla eins og Instagram og Facebook. Þar eru allir frekar sprækir og glaðir og segja hinum hvað þeir lifi stórkostlegu lífi. Instagram er svolítið eins og ferilskrá fyrir atvinnuviðtal. Þar tínir fólk til það albesta úr lífi sínu en sleppir restinni. Minnist ekkert á vondu tímabilin.“

Marta María bendir hins vegar á að Facebook haldi utanum um mistök okkar. Þau séu að finna undir hnappnum; minningar.

„Þar blasa við vondu tímabilin í lífi okkar þegar færslur fyrri ára eru rifjaðar upp. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég oft:

„Vá, hvernig fór ég að því að vera svona mikill plebbi.“

Marta María heldur áfram: „Hvers vegna var ég að monta mig af því þremur dögum fyrir bankahrun að ég ætti geggjað hreint heimili. Hverjum er og var ekki sama um það? Og hvers vegna var ég með hálfkveðnar vísur um að ég hefði gert eitthvað æðislegt kvöldið áður? Ég veit ekki alveg.“

En það er annað sem fer frekar fyrir brjóstið á Mörtu Maríu. Það er hvernig við komum fram við annað fólk á samfélagsmiðlum. Hún segir:

„Það er annað sem truflar mig hinsvegar meira en vondu Facebook-minningarnar og það er þörf „vina“ minna á samfélagsmiðlum til að henda öðru fólki fyrir strætó. Þegar þetta rant byrjar hugsa ég oft:

„Hvað ætli sé að angra þennan „vin“ minn núna. Hvers vegna er hann/hún í svona miklu ójafnvægi?“

Marta María bætir við að þegar fólki líði vel, eigi í ástríku sambandi við maka og börn og séum sátt og glöð í vinnunni eða upplifum að við séum metin af verðleikum, þá hafi fólk ekki þörf til að níða skóinn af öðru fólki, þar sem við erum hamingjusöm og upptekin af eigin lífi. Marta María segir að lokum:

„Þegar við erum hins vegar vanstillt þá getum við gert alls konar heimskulega hluti. Stundum væri mun farsælli lausn að panta tíma hjá fagaðila og reyna að slétta úr krumpunum sem búa innra með okkur í stað þess að nota samfélagsmiðla sem lífæð. Þær minningar verða örugglega ennþá verri í framtíðinni en mont um hreinasta heimili landsins.“

Nýjast