Magnús líka rekinn: Ástandið óbærilegt

Magnús líka rekinn: Ástandið óbærilegt

Sveinn Guðmundsson, formaður SÍBS, hefur sagt upp Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi. Magnús hafði starfað á endurhæfingarstöðinni í 35 ár. Uppsögnin kemur beint í kjölfar þess að Hringbraut greindi frá því að  Birgi Gunnarsyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Reykjalundar til 12 ára, hefði verið sagt upp fyrirvaralaust 30. september. Birgir var leiddur út úr skrifstofum Reykjalundar af stjórnarformanni og varaformanni stjórnar SÍBS sama dag og hann skrifaði undir starfsmannalokasamning. Birgir og Magnús náðu vel saman. Samkvæmt heimildum Hringbrautar ásælist stjórn SÍBS leigutekjur sem Reykjalundur hefur af húsnæðinu en SÍBS leggur ekki fjármuni til rekstursins.

Vísir greindi frá uppsögn Magnúsar nú í kvöld sem og staðfestir frétt Hringbrautar að ástandið á svæðinu sé þrungið spennu og starfsmenn eru óöryggir. Þannig hefur Vísir eftir starfsmanni að ástandið sé óbærilegt.

SÍBS sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem frétt Hringbrautar var vísað á bug. Til stóð að Magnús myndi láta af störfum á næstu mánuðum. Stjórnin taldi hins vegar rétt að segja honum upp störfum í dag.

Hringbraut greindi enn fremur frá ástæðum uppsagnar forstjórans í gær og er hún ekki af ástæðulausu.

Árið 2013 ákvað stjórn SÍBS að leigutekjur af húsnæði Reykjalundar skildu renna beint til félagsins en ekki til rekstrar Reykjalundar. Fjármagnið vegna leigutekna er um 30 milljónir árlega. Að sögn heimildarmanna barðist Birgir hart gegn því að umræddir fjármunir yrðu teknir úr rekstri Reykjalundar enda ljóst að slíkur niðurskurður myndi fyrst og fremst bitna á sjúklingum og starfsfólki. Birgir hafði betur í baráttunni en með skipan nýs forstjóra stendur ekkert í vegi stjórnar SÍBS að taka þessar dýrmætu 30 milljónir króna sem áður fóru til Reykjalundar og færa þær yfir í rekstur SÍBS, þar sem samþykkt stjórnar liggur fyrir. Þá segja heimildarmenn Hringbrautar að stjórn SÍBS sögð að reyna ítrekað að hafa áhrif á ákvörðunartöku þegar kemur að daglegum rekstri Reykjalundar. Þess má geta að SÍBS leggur enga fjármuni í daglegan rekstur Reykjalundar heldur sér íslenska ríkið alfarið um að fjármagna starfsemina sem þar fer fram.

Nýjast