Logi: Ræktar trufflusveppi og selur og kaupir sífellt stærri hluta eignarinnar - Getum kallað blokkina þjóðarheimilið

Logi: Ræktar trufflusveppi og selur og kaupir sífellt stærri hluta eignarinnar - Getum kallað blokkina þjóðarheimilið

„Einhverjir freistast kannski til að segja að hér sé allt í sómanum en þá er ekki úr vegi að skoða aðeins stöðuna,“ sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hann bætti við að það mætti ímynda sér snotra blokk á stórri lóð. Logi sagði:

„Í blokkinni eru 20 íbúðir, af mismunandi stærðum - íbúarnir af öllum gerðum. Flestir hafa það þokkalegt, einhverjir eru fátækir en ein fjölskyldan forrík og ræður mestu. Það vekur nefnilega athygli að ein íbúðin er jafn stór hinum nítján. Og þó lóðin sé óskipt sameign, nýtir stærsti eigandinn bróðurpart hennar: Þar ræktar hann trufflusveppi og selur. Ágóðann notar hann til að kaupa sífellt stærri hluta eignarinnar, sem hann leigir aftur til íbúanna. Þó blokkin líti vel út að utan er viðhald sameignar lélegt. T.d. vilja íbúar á neðri hæðum ekki taka þátt í þakviðgerðum og enginn sátt ríkir um hvernig greiða á í hússjóð,“ sagði Logi og bætti við:

„Við getum kallað blokkina þjóðarheimilið.  Allt klippt og skorið á yfirborðinu - gott að meðaltali - en þegar betur er að gáð blasir við heilmikið óréttlæti.“

Logi sagði einnig í ræðu sinni:

„Það ætti ekki að skapa einstæðri móður stórkostlegan vanda ef úlpa barnsins týnist, börn ættu ekki að vera á hrakhólum milli skólahverfa vegna ótryggs leigumarkaðs, gamalt fólk ætti ekki að þurfa að neita sér um læknisþjónustu vegna auraleysis, láglaunafólk og öryrkjar ekki að vera matarlitlir hluta af mánuðinum, ungmenni í neyslu ekki að koma að lokuðum dyrum kerfisins, börn sem hingað leita á flótta ekki að lifa í nagandi óvissu vegna kaldlyndrar stefnu og konur ættu auðvitað ekki að fá lægri laun en kallar.

Og! -  efnalítið fólk ætti heldur ekki að þurfa að neita sér um menningu, listir, íþróttir og hluti sem eru ekki aðeins krydd í brauðstritinu, heldur jafn nauðsynlegt manninum og súrefni, svefn og vatn. – Það er líka fátækt herra forseti.

Þetta er nú samt enn staðan á Íslandi.“

Þá sagði Logi nauðsynlegt að fá nýja stjórnarskrá og taka þátt í fjölþjóðasamstarfi sem skili auknu öryggi, ríkari lífsgæðum, víðari sjóndeildarhring og stöðugri gjaldmiðli. Logi sagði:

„Ríkisstjórnin boðar engar grundvallaraðgerðir sem munu breyta núverandi stöðu. Efnahagsstjórnin er á forsendum Sjálfstæðisflokksins.“

Nýjast