Keðjuverkun neikvæðra áhrifa vegna gjaldþrots WOW

Forstöðumaður greiningardeildar Arion banka gestur í 21 í gærkvöld:

Keðjuverkun neikvæðra áhrifa vegna gjaldþrots WOW

Stefán Broddi Guðjónsson
Stefán Broddi Guðjónsson

„WOW hefur spilað mjög stórt hlutverk í að byggja upp þann fjölda ferðamanna sem hingað hefur komið, verið sterkir á Bandaríkjamarkaði og svona rekið annað módel en keppinauturinn og hristi rækilega upp í markaðnum. Ég hugsa að á síðasta ári hafi menn áætlað að um 27 prósent, það var svona talan sem var áætluð, þeirra ferðamanna sem komu í fyrra hafi komið með WOW. Í lok síðasta árs var ljóst að félagið myndi hvort sem er draga mjög úr starfsemi sinni, minnka hana kannski um helming. En eigi að síður er auðvitað höggið þungt.“

Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, sem var gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar ræddi hann þjóðhagsleg áhrif gjaldþrots WOW air. Stefán Broddi skoðaði sérstaklega áhrifin á ferðaþjónustuna og efnahag landsmanna.

Arion banki birti hagspá sína degi fyrir gjaldþrot WOW air og setti þar upp tvær mismunandi sviðsmyndir með tilliti til hvort WOW air myndi lifa af eður ei. Í báðum sviðsmyndum spáði bankinn efnahagssamdrætti. „Það má segja að miðað við þá mynd sem við höfum horft til, með þeim áhrifum á þeirri fækkun sem var fyrirsjáanleg í minnkun á starfsemi WOW, og svo það að WOW verði ekki, þá hefur okkur sýnst að fækkun ferðamanna gæti farið úr kannski níu prósent niður í fækkun um svona 16 prósent. Þannig að það er svona myndin sem við erum með í kollinum, en það eru svo sem ekkert nákvæm vísindi,“ segir Stefán Broddi um hagspánna.

Áhrif gjaldþrots WOW air eru víðtæk og lúta ekki bara að ferðaþjónustunni. „Það að hafa flutt in 27 prósent ferðamanna til Íslands, það þýðir að það má gera ráð fyrir samdrætti í ferðaþjónustunni, og það þýðir samdrátt í útflutningstekjum þjóðarbúsins, og það þýðir að hagvöxtur dregst saman og viðskiptaafgangur verður ekki eins mikill og annars hefði orðið, eða breytist í halla. Það þýðir að krónan, hún gæti átt undir högg að sækja. Það þýðir að, ef svona íslenska jafnan gengur upp, er hætta á að verðbólga stígi. Við sjáum það þegar verðbólga stígur, þá hefur það neikvæð áhrif á skuldir heimilanna og fyrirtækja o.s.frv. þannig að áhrifin eru auðvitað mjög víðtæk.“

Viðtalið við Stefán Brodda í heild sinni er að finna hér:

Nýjast