GRÆNMETI: ÞAR ER MESTA NÆRINGIN

Lukka Pálsdóttir byrjaði með Heilsuráð sín á Hringbraut í gærkvöld:

GRÆNMETI: ÞAR ER MESTA NÆRINGIN

Grænmeti er grunnurinn að góðri heilsu.  Það er sá fæðuflokkur sem hefur mesta næringarþéttni, þ.e. gefur þér flestar næringareiningar fyrir hverja hitaeiningu.
 
Þetta var meginstefið í Heilsuráðum Lukku á Hringbraut á mánudagskvöld, en þar fór fyrsti þátturinn í umsjá þessa vinsæla veitingamanns í Happi, en þeir verða frumsýndir næstu mánuði á mánudagskvöldum klukkan 21:00. Þar leiðir Lukka áhorfendur í allan sannleika um nauðsyn betra mataræðis.
 
Þátturinn verður endursýndur á Hringbraut í kvöld klukkan 20:30, en einnig er hægt að skoða hann hér á vef stöðvarinnar.
 
Og hér er Lukka auðvitað á heimavelli: "Grænmeti er trefjaríkt, steinefnaríkt og gjöfult af hinum ýmsu vítamínum en auk þess gefur það okkur fjöldann allan af snefilefnum sem mörg hver heita framandi nöfnum.  Þannig gefur brokkólí okkur sulforaphane sem er talið geta gert við æðaskemmdir hjá sykursjúkum, tómatar gefa okkur lycopene sem er talið veita vernd gegn blöðruhálsmeinum, hindber gefa okkur ellagic sýru sem er talin hindra nýmyndun æða í krabbameinsæxlum og draga þannig úr vexti þeirra og turmeric rótin inniheldur virka efnið curcumin sem vinnur gegn bólgum og er talið auka frumudauða krabbameinsfruma.  Svona mætti lengi halda áfram að telja.
Svo ótal margar rannsóknir eru til sem sýna fram á mikilvægi þess fyrir heilsu okkar að borða grænmeti að það væri alveg galið að stinga höfðinu í sandinn og nýta sér ekki þessa öflugu verkfærakistu.  Munið þó að ekkert eitt plöntuefnanna er töfralausn og engin ein fæðutegund er ofurfæða.  Allt eru þetta mikilvæg púsl í stóru myndinni.  Rétt eins og hornin eru mikilvæg í venjulegu púsli þá yrði heildarmyndin ekki falleg ef við reyndum að nota einungis hornastykkin. 
 
Fjölbreytni í fæðivali er því ekki síður mikilvæg." 
 
Heilsuráð Lukku eru sumsé alltaf á Hringbraut á mánudagskvöldum klukkan 21:00.

Nýjast