Erna Kristín lærði að elska líkama sinn: „Eitt sterkasta vopnið sem við getum átt til þess að verja okkur“

Erna Kristín lærði að elska líkama sinn: „Eitt sterkasta vopnið sem við getum átt til þess að verja okkur“

Erna Kristín er 28 ára gömul móðir, guðfræðingur og talskona fyrir jákvæða líkamsímynd. Erna þjáðist lengi vel af átröskun sem litað líf hennar mikið. Hún leit neikvæðum augum á líkama sinn og gekk langt til þess að fylgja samfélagslegri staðalímynd um kvennlíkamann.

Í dag hefur Erna unnið mikið í sjálfri sér og hjálpar öðru fólki að gera það saman. Segir hún upphafið af öllu saman hafa byrjað þegar hún fékk nóg af sinni eigin líkamsímynd.

„Það byrjaði allt þegar ég fékk nóg af minni neikvæðu líkamsímynd og ákvað að opna mig á samfélagsmiðlum og snúa blaðinu við. Það er rosalega mikil þörf fyrir jákvæða líkamsímynd! Á hverjum degi hrannast inn skilaboð frá konum sem leita eftir ró og ráðum til þess að læra elska líkama sinn,“ segir Erna í viðtali við Hringbraut.

Vill bæta lífsgæði fólks

Þegar Erna opnaði sig í fyrsta skiptið um vanlíðan sína gagnvart líkamanum og því að hún vildi breyta hugarfari sínu til jákvæðrar líkamsímyndar bjóst hún ekki við þeim svakalegum viðbrögðum sem hún fékk.

„Nei, ég í raun opnaði mig til þess að taka skrefið sjálf fyrir mig og viðbrögðin voru rosaleg. Nánast allar konur sem senda mér þjást af neikvæðri líkamsímynd sem er ekkert nema sálarfangelsi. Èg ákvað því að taka slaginn enn lengra og skrifaði bókina Fullkomlega Ófullkomin. Bókin er í raun verkfærabók, full af ráðum, reynslusögum, myndum og fleira sem konur geta notað til að komast skrefinu nær í átt að jákvæðri líkamsímynd."

Aðspurð út í þau viðbrögð sem hún fékk segist Erna þakklát fyrir það að þau hafi aðallega verið jákvæð. Þá segir Erna tilgang sinn vera að bæta lífsgæði fólks.

„Frelsið sem fellst í því að elska sig skilyrðislaust er eitthvað sem èg óska öllum. Það að geta mætt kröfum samfélagsins án þess að láta það hafa áhrif á sig eða líkamsímyndina er eitt sterkasta vopnið sem við getum átt til þess að verja okkur fyrir óraunhæfum staðalímyndum. Við erum algjörlega við stjórn, meðvitað að taka ákvörðun að elska okkur hér og nú burt séð frá holdafari. Markmið mitt er að hjálpa sem flestum að taka skrefin í átt að jákvæðri líkamsímynd.“

Allir líkamar er eru fallegir á sinn hátt

Síðan Erna hóf baráttu sína gegn neikvæðri líkamsímynd hefur hún haldið nokkra fyrirlestra og námskeið fyrir fólk og trúir hún því að með því að ræða málefnið við ungt fólk í dag þá geti það komið í veg fyrir neikvæða líkamsímynd þess í framtíðinni.

„Klárlega, við þurfum að fá þessi verkfæri til þess að leyfa ekki neikvæðum skilaboðum að hafa áhrif á hvernig við sjáum okkur. Því fyrr sem við lærum að verðleikar okkar koma ekki í holdafari því betra. Allir líkamar eru fallegir á sinn hátt og eiga skilið sömu virðingu.“

Erna telur helstu ástæðu neikvæðrar líkamsímyndar í dag vera óraunhæfar kröfur samfélagsins og það að markaðurinn græði á brotinni líkamsímynd fólks.

„Ef allir myndu vakna upp einn daginn og ákveða að elska sig hér og nú, hverju mörg fyrirtæki færu á hausinn? Ég trúi því að með tímanum þá fari þetta minnkandi og jafnvel í bylgjum. En á meðan það er þannig þá þurfum við að efla okkur og fræða til þess að geta mætt þessum skilaboðum með gagnrýnni hugsun. Besta sem við getum gert er að komast á þann stað að skilaboðin hafa engin áhrif á okkur. Við vitum betur. Hamingjan kemur ekki í holdafari og við erum öll fullkomlega sköpuð og falleg á okkar einstaka hátt. Enginn og ekkert á að hafa það vald að ákveða hvaða líkamar eru betri en aðrir. Við erum öll á sama stalli.

Þann 10. október býður Erna allar konur velkomnar á ókeypis námskeið sem haldið verður í Ástjarnarkirkju. Stúlkur á aldrinum 13-17 ára verða klukkan 16:00 – 17:30 og 18 ára og eldri klukkan 18:00-19:30. Þar ætlar hún að fara yfir líkamsvirðingu, sjálfsmyndina, óraunhæfar staðalímyndir og þau skref sem fært getur konur nær jákvæðri líkamsímynd. Fyrir þá sem vilja skrá sig á námskeið Ernu geta sent henni skilaboð á ernuland@gmail.com

Nýjast