Gömul amerísk húsráð - Flest hafa þau elst illa

Gömul amerísk húsráð - Flest hafa þau elst illa

Það getur verið dásamlegt að fletta í gegnum eldri bækur, sérstaklega þær sem innhalda ráðleggingar af ýmsu tagi. Það er ekki víst að ráðin komi að miklu gagni en þau hafa vissulega mikið skemmtanagildi. Hér koma nokkur ráð tekin upp úr bók sem var gefin út árið 1922.

Amerísk ráð  

Þýtt úr ýmsum Amerískum ritum af Margréti Jónsdóttur

Læknisráð - Að verja sig móti kvefi.

Til þess að maðurinn sé ómóttækilegur fyrir kvefi, verður hann að vera hraustur, og hreysti og heilsa kemur með reglusömu líferni. Eta vel, sofa vel og hafa líkamshreyfingar. Það er gott að baða líkamann úr köldu vatni á morgnana og nudda líkamann með tyrknesku handklæði á eftir. Ef þetta er gert á hverjum morgni, og líkaminn nuddaður þar til hann verður rauður, verður maður ómóttækilegur fyrir kvefi.

Á meðan maður er óvanur að baða sig úr köldu vatni, er best bara að þvo sér úr köldu vatni og nudda svo líkamann á eftir. En ef maður fær kvef, þá er um að gera að bregðast við strax og reyna að verða laus við það, því annars getur maður haft það svo vikum skiptir. Það er gott að búa til heitt bað og láta 1 pund salt og ½ pund sinnep í, og drekka svo tvo pela heitt öl, hrært með þremur eggjum og ¼ pundi sykur. Hátta síðan ofan í rúm, milli tveggja ullarteppa og sofa til næsta dags. En þessi tilbúningur er gerður til að reka kvefið burt með svita.

Hvað skal gera ef slys ber að höndum.

Drukknun

1.      Losa um öll föt, ef föt eru.

2.      Ná vatninu úr lungunum með því að leggja manninn á magann, lyfta líkamanum upp að miðju og láta höfuðið hanga niður.

3.      Teig tunguna fram, brúk vasaklút eða sting hreinni saumnál gegnum tunguna, bind seglgarn við, ef nauðsynlegt er.

4.      Þrýst á lægri rifbeinin og gef eftir á víxl, svona tuttugu sinnum á mínútunni.- Lyft handleggjunum upp og niður frá síðunum og upp að höfðinu, til að styrkja lungun.

5.       Haldið heitum dunk eða flösku við fæturna og nudda fótleggina og lærin.

6.      Tak djúpan andardrátt og anda í munn hins veika, og þrýstið á brjóstið, til að fá loftið út aftur, og endurtak tilraunina.

7.      Haf þolinmæði; fólk hefir verið lífgað frá drukknun eftir fleiri tíma stranga tilraun.

Yfirlið

Legg sjúklinginn á bakið, þar sem frískt loft getur blásið um hann, og skvett köldu vatni framan í hann.

Og að lokum

Hristi ekki rúmið, sem sjúklingurinn sefur í, þar eð þetta er óviðkunnanlegt fyrir hinn veika.

Nýjast