Persónuvernd hafnar öllum kröfum Miðflokksmanna

Persónuvernd hafnar öllum kröfum Miðflokksmanna

Kröfu lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins um að Persónuvernd myndi fara í frekari gagnaöflun vegna Klaustursmálsins hefur verið hafnað. Stjórn Persónuverndar komst að þessari niðurstöðu í dag. Meðal þess sem þingmenn Miðflokksins kröfðust voru persónulegar bankaupplýsingar Báru Halldórsdóttur fyrir mánaðartímabil. Einnig kröfðust þingmennirnir um að fá yfirlit yfir farsímanotkun hennar.
 
Samkvæmt úrskurði Persónuverndar telur stofnunin að hún hafi ekki heimild til að afla upplýsinga um persónuleg fjármál Báru, né gögn úr síma hennar. Í úrskurðinum er tekið fram að Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, telur sig hafa óræka sönnun fyrir því að aðgerðir Báru hafi verið vel undirbúnar. Samkvæmt honum átti Bára að hafa virt aðstæður fyrir sér kyrfilega áður en haldið var inn á Klaustur bar, meðal annars að taka mynd af þingmönnunum áður en hún fór inn. Segir hann enn fremur að Bára væri ekki fær um að framkvæma þennan verknað ein. Talar hann um að um „samverknað hafi verið að ræða“.
 
Í ákvörðun Persónuverndar kemur einnig fram að lögmaður Báru neitar því alfarið að einhver hafi fengið hana til að taka upp samræður þingmannanna. Þá telur lögmaðurinn að það eigi vísa málinu frá þar það sé ekki stofnunar eins og Persónuverndar að skera úr um slíkar kröfur, heldur sé það hlutverk dómstóla. Bæði héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa hafnað öllum kröfum þingmanna Miðflokksins vegna málsins.

Nýjast