EKKI BLÓTA KOLVETNI, HELDUR SYKRI

Kolvetni - prótín - fita; hvert þessara efna grennir okkur?

EKKI BLÓTA KOLVETNI, HELDUR SYKRI

"Orkuefnin eru ÖLL mikilvæg fyrir okkur og ekki ráðlegt að reyna að fjarlægja nokkurt þeirra. Auk þess hefur líkaminn einstaka hæfni til að breyta einu orkuefni í annað. Þ.e.a.s. ef þú borðar meira af hitaeiningum en líkaminn brennir þá breytir hann umframorku í fitu og geymir hana þannig."
 
Þetta voru heilsuráð Lukku í samnefndum þætti á Hringbraut í gærkvöld, sem sjá má hér á vef stöðvarinnar, en þar lýsir þessi kunna veitingakona leiðina að betra mataræði. Og hér er Lukka Pálsdóttir með sitt á hreinu: "Gildir einu hvort við borðum of mikið af kolvetnum, fitu eða prótínum, það er alltaf hagstæðast fyrir líkamann að geyma umfram orku í formi fitu. Hvort sem markmiðið er þyngdarstjórnun, bætt heilsa eða betri árangur í íþróttum ætti hugsunin alltaf að snúast um GÆÐI þeirrar orku sem við nærumst á en ekki flokka orkuefna." 
 
Hún minnir á gæði umfram magn: "Því meira sem sú fæða sem við veljum að setja inn fyrir okkar varir inniheldur af steinefnum, trefjum og vítamínum því meiri gæði," og þetta ber ekki síst að hafa í huga: "Kolvetni eru ekki djöfullinn og það er ekki nauðsynlegt að sneiða alveg hjá kolvetnum til að grenna sig eða ná góðri heilsu.   Vandaðu hins vegar valið og veldu góða kolvetnagjafa s.s. grænmeti, ávexti og grófmeti en forðastu kökur, kex og gosdrykki. 
Hættu að hugsa um hlutföll orkuefnanna og einblíndu á það sem þú færð í kaupbæti með aðalprótíngjafanum þínum." 
 
Og Lukka var ekki hætt: "Ef aðalprótíngjafinn okkar er kjöt og mjólkurvörur fáum við í kaupbæti heilmikið af fitu, slatta af steinefnum og vítamínum, töluvert mikið af hitaeiningum en engar trefjar. Ef aðalprótíngjafinn er grænmeti, baunir og fræ fáum við í kaupbæti dúndurskammt af trefjum, heilan helling af steinefnum, vítamínum og andoxunarefnum auk aragrúa af verndandi plöntuefnum sem bæta heilsuna og veita vernd gegn langvinnum sjúkdómum. Allt þetta fyrir tiltölulega fáar hitaeiningar. Þitt er valið!"
 
Heilsuráð Lukku eru frumsýnd á Hringbraut klukkan21:00 á mánudagskvöldum, endursýnd 20:30 á miðvikudögum og einnig sýnd um helgar.

Nýjast