Hulunni svipt af uppskriftinni af frumlegustu brauðtertu ársins 2019

Matarást Sjafnar

Hulunni svipt af uppskriftinni af frumlegustu brauðtertu ársins 2019

Frumlegasta brauðterta ársins 2019.
Frumlegasta brauðterta ársins 2019.

Í þættinum Fasteignir og Heimili á dögunum heimsótti Sjöfn Þórðar frumkvöðlana Atla Stefán Yngvason og Kristján Thors heim til Atla í Stakkholtið og fékk þá til að svipta hulunni af verðlaunabrauðtertu sinni sem hefur vakið mikla athygli.  Atli Stefán og Kristján báru sigur úr býtum fyrir frumlegustu brauðtertu ársins 2019 í Brauðtertukeppninni sem var haldin af Brauðtertufélagi Erlu og Erlu í samstarfi við Menningarnótt og listakonurnar Tönju Leví og Valdísi Steinarsdóttur á Menningarnótt 2019.  Þeim er margt til lista lagt og það má með sanni segja að tilurð þessara brauðtertu sé hin frumlegasta og hugmyndin af skreytingunni er söguleg.  „Þegar við fórum í hugaflug að leita að hugmyndum hvernig við gætum skreytt brauðtertuna og tengt hana við hraðfisk, þá kom upp hugmyndin um skreið og skreiðarfánann hans Jörundar hundagakonungs,“ segir Atli Stefán.  Sjöfn fékk að sjálfsögðu að smakka brauðtertuna og naut þess. „Bragðið kemur verulega á óvart og bragðlaukarnir nutu sín í botn, ég hefði aldrei getað giskað á hvað er í þessari brauðtertu í fyrstu atrennu,“ sagði Sjöfn eftir smökkunina. Hér er uppskriftin komin í öllu sínu veldi.

Frumlegasta brauðterta ársins 2019 – Skreiðfánaterta Jörunds hundadaga konungs

10 g harðfiskur rifið fínt niður 

100 g majónes 

50 g kotasæla 

25 g sýrður rjómi 

½  fennel hjarta skorið í fína teninga 

1 rauðrófa saltbökuð skorin í fína teninga 

¼  blaðlauks ströngull skorinn í fína teninga 

Smá sítrónupipar eftir smekk

1 stk brauðtertubrauð, ílangar ( 5 sneiðar)

Öllu hráefninu er blandað saman í skál.  Leyfa þessu svo að marinerast í allavega tvær klukkustundir ef ekki lengur. Þegar harðfisksalatið er tilbúið er brauðtertubrauðið tekið fram og snyrt.  Allir endar skornir af brauðtertusneiðunum. Síðan er salatinu smurt lag fyrir lag á brauðið, fjórar hæðir er passleg stærð.  Síðan er brauðtertan smurð með fjólubláa fagra majónesinu og skreytt með harðfisk að vild. Gott að geyma í kæli þar til hún verður borin fram. 

Fjólubláa majónesið yfir brauðtertuna

1 poki af rauðkáli

1 dolla majónes

Harðfiskur til skrauts

Rauðkál soðið í vatni, eftir um 10-15 mínútur eða þar til rauðkálið er orðið mjúkt. Rauðkálið er fjarlægt og vökvinn soðinn niður í síróp. Sírópinu er blandað við majónes og hrært vel saman. Þessu eru síðan smurt yfir brauðtertuna vel og vandlega.  Að lokum eru teknar nokkrar ræmur af harðfisk og þær klipptar út eins skreið, skreið er fyrirmynd af harðfiskskrautinu á brauðtertunni.

Njótið vel.

Sjá má þáttinn hér.

Nýjast