Viltu léttast eða þyngjast? svona telur þú hitaeiningarnar

Já, þetta hljómar ekkert svakalega sexy en allir þeir sem eru í þeim hugleiðingum að létta sig eða skera niður fitu, þurfa að læra inn á hitaeiningar. Reikningsdæmið er einfalt. Ef þú vilt léttast, þá þarftu að innbyrða færri hitaeiningar en þú notar yfir daginn. Ef þú vilt þyngjast, þá þarftu að innbyrða fleiri hitaeiningar en þú notar yfir daginn.

Þeir sem hafa aldrei talið hitaeiningar (e. calories) hafa oft ekki hugmynd um hvað þeir eru að innbyrða mikið af hitaeiningum á dag. Sumir borða allt of lítið á meðan aðrir borða því miður allt of mikið. Af þeim fjölmörgu kúnnum sem ég hef þjálfað, þá hafa margir af þeim rekið upp stór augu þegar þau byrja að fylgjast með næringarinntökunni.

Í dag er auðvelt að telja hitaeiningar þar sem smáforrit gera manni kleift að skrá matinn á ferðinni og einnig bjóða þau upp á að þú getir skannað strikamerki og fengið næringarinnihaldið inn um leið. Smáforritið „myfitnesspal” er það vinsælasta í dag og mjög einfalt í notkun.

Þeir sem nenna ekki að telja hitaeiningar nota oft afsakanir eins og að þeir hafi ekki tíma og að erfitt sé að finna út hversu stórir skammtarnir eru. Án þess að ég sé að ýkja, þá tekur um 5 mínútur á dag að skrá inn matinn og ef það er erfitt að finna út skammtastræðir, þá mæli ég með lítilli, ódýrri matarvigt til þess að vigta magnið. Ef markmiðið er að léttast og löngunin í árangur er sterk, þá er þetta ansi lítil vinna.

Ein stærsta ástæðan fyrir því að einstaklingar léttist ekki, þó svo að reynt sé að borða hollt og passa upp á skammtastærðir, er vegna þess að viðkomandi veit ekki hversu mikið af hitaeiningum hann þarf. Til eru einfaldar reiknivélar á netinu sem geta gefið þér hugmynd um hversu mikið af hitaeiningum þú þarft til þess að ná þínu markmiði.

Reiknaðu út hitaeiningaþörf þína HÉR

Reiknaðu út grunnbrennsluna (BMR) HÉR

\"\"

Birt í samstarfi við Heilsutorg. Höfundur greinar er Vilhjálmur Steinarsson, íþróttafræðingur.