Vill útrýma kynferðisofbeldi á þingi

Vill útrýma kynferðisofbeldi á þingi

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hélt ræðu á Alþingi í dag um kynferðisofbeldi gegn þingkonum. Hann sagði það mikilvægt að karlkyns þingmenn tækju höndum saman við að útrýma ofbeldi gegn kvenkyns þingmönnum. RÚV.is greinir frá.

Birgir vitnaði til rannsóknar sem var gerð á vegum Evrópuráðsins á meðal 80 kvenkyns þingmanna í 45 löndum. „Niðurstöðurnar eru sláandi. Daglega verða þingkonur í Evrópu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Rúmlega 40 prósent af þingkonum í þjóðþingum Evrópu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í 70 prósent tilfella eru gerendurnir karlkyns þingmenn,“ segir Birgir.

Hann bætti við: „Helmingur þingkvenna hefur orðið fyrir kynferðislegum athugasemdum þar sem mikill meirihluti gerenda eru karlkyns þingmenn. Það sem er einnig sláandi er hversu lágt hlutfall þessarra kvenna kæra verknaðinn, eða einungis 20 prósent. Afleiðingarnar eru margvíslegar, kvíði, svefnleysi og ýmisleg heilsufarsleg vandamál. Auk þess hefur þetta neikvæð áhrif á framgang þeirra í stjórnmálum. Herra forseti. Það er í höndum okkar karlkyns þingmanna að uppræta þessa miklu meinsemd sem viðgengst í öllum þjóðþingum Evrópu, einnig hér á landi.”

Í síðustu viku sótti Birgir ráðstefnu Evrópuráðsins ásamt Rósu Björk Brynjarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata. Þar var hleypt af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi á þjóðþingum er nefnist Not in my Parliament. Hann hélt því næst upp spjaldi með þessum kjörorðum og hvatti til samstöðu þingmanna í þessu máli og uppskar við það fjölda af „heyr heyr“ úr þingsal. Rósa Björk tók undir í sinni ræðu og sagði þurfa að útrýma karlrembu á þinginu, virðing Alþingis væri þar undir.

Nýjast