Vill ekki að fólk loki augunum og sé blekkt: „Fjöldi dýra sem deyja til að hægt sé að framleiða veganmat er ótrúlega mikil

Vill ekki að fólk loki augunum og sé blekkt: „Fjöldi dýra sem deyja til að hægt sé að framleiða veganmat er ótrúlega mikil

Vegan lífsstíll hefur vakið mikla umræðu hérlendis sem og annars staðar í vestrænum heimi. Þeir sem aðhyllast veganisma borða einungis fæðu úr jurtaríkinu og nota ekki vörur framleiddar úr dýraafurðum.

Hugmyndin á bakvið veganisma er að skaða ekki dýr að óþörfu fyrir mannfólkið og er sú hugsun falleg og skiljanlegt að margir aðhyllist hana. Grein í Bændablaðinu hefur vakið þó nokkra athygli undanfarna daga en þar skoðaði blaðamaður grein eftir Matthew Evans sem birt var í tímaritinu Weekend Australia í sumar.

Vegan fólk þarf að loka augunum fyrir fjölmörgum staðreyndum

Evans er bóndi, matreiðslumaður og matargagnrýnandi sem tók þá ákvörðun að verða vegan. Gerði hann tilraunir sem grænmetisæta og skoðaði hugmyndafræðina á bakvið vegan lífsstílinn. Niðurstöður hans voru vægast sagt sláandi en hann segir að til þess að trúa hugmyndafræðinni á bakvið vegan þurfi fólk að loka augunum fyrir fjölmörgum staðreyndum eða gráum svæðum.

Segist Evans vilja óska þess að hugmyndafræðin væri jafn einföld og hún er sett upp og að með því að sleppa því að neyta dýraafurða sé fólk að draga úr þjáningu dýra en segir hann dæmið ekki svo einfalt.

Mynd: Matthew Evans

Vísar hann til býlis sem hann heimsótti þar sem stunduð er nautgriparækt, sauðfjárrækt, skógrækt, byggrækt og stundum baunarækt eða erturækt.

Til þess að vernda baunaræktunina hafa bændurnir reist girðingar til að halda dýrum frá baunaökrunum, þrátt fyrir það neyðast þeir til þess að skjóta mikið af dýrum sem sækja í akrana. Segir Evans að á meðan hann var á bænum hafi bændurnir fengið leyfi til þess að drepa 150 dádýr til þess að verja akurinn.

„Þeir drepa reglulega um 800 til 1.000 possums (eins konar rottur) og 500 wallabies (pokadýr) á hverju ári ásamt nokkrum öndum. Bændur á  Collydean-sveitabýlinu [Innsk. Blm: Dulnefni á bænum] bjóða einungis veiðimönnum að veiða sem nota dýrin sem þeir drepa til manneldis eða nýta dýrin í gæludýrafóður. Veiðimennirnir mega ekki skilja dýrin eftir á akrinum eins og algengt er þegar bændur eru að verja uppskeru sína. Meira en 1.500 dýr eru drepin á hverju ári til að hægt sé að rækta baunir á um 75 hekturum á Collydean-sveitabýlinu sem síðan fara í frystigeymslur. Þá eru ekki talin með 1.500 nagdýr, sem líka láta lífið vegna ræktunarinnar og sumir líta á sem óhjákvæmileg afföll á dýrum (collateral damage). Þau dýr sem drepast eru vissulega falleg dýr með heitt blóð. Auk þess er eitthvað af fuglum sem drepnir eru, en þeim er hent.“ 

Eigendur akranna sögðu Evans að ekki væri hagkvæmt að rækta baunirnar án þess að drepa dýr.

„Það þýðir að í hvert skipti sem við borðum baunir hafa bændur fyrir okkar hönd reynt að hafa stjórn á „plágunni“ sem sækir í uppskeruna.  Dýrin hafa því dáið í okkar nafni,“ segir Evans. „Fjöldi dýra sem deyja til að hægt sé að framleiða veganmat er ótrúlega mikill.“ 

Drápu 200.000 endur til þess að vernda akrana

Þá greinir Evans einnig frá því að samkvæmt rannsókn sem Mike Archer, prófessor við raunvísindadeild Háskólans í Nýju Suður-Wales, deyji um það bil 25 sinnum fleiri tilfinningaverur við framleiðslu á próteini úr hveiti heldur en úr nautakjöti.

„Svakalegur fjöldi af smádýrum lætur lífið við að framleiða hveiti. Jú, aðallega eru þetta nagdýr, en í hinum fullkomna veganheimi ættu þá ekki öll dýr með heitt blóð að vera lögð að jöfnu?“

Þegar Evans skoðaði stöðu hrísgrjónaakra komst hann að því að á fimm ára tímabili fram til ársins 2013 hafi hrísgrjónabændur í NSW drepið næstum 200.000 endur til að vernda akra sína.

„Já, það er rétt, bara til að rækta hrísgrjón. Það er til viðbótar við öll dýrin sem drepin hafa verið vegna óbeinna áhrifa af hrísgrjónaræktuninni, dýr sem lifðu á vatnasvæðum sem tæmd voru til að veita vatni á akrana í þessari þurru heimsálfu. Svona er nú landbúnaðurinn. Til að rækta eitthvað hefur það óhjákvæmilega áhrif á aðra þætti í lífríkinu. Stundum eru það dýr og þá stundum fjári mikill fjöldi af dýrum. Dýrin sem aðallega drepast á Fat Pig Farm, landareign okkar í Huon-dalnum sunnan Hobart, eru sniglar sem annars gætu eyðilagt garðinn okkar ef þeir fengju að vera í friði. Við drepum nálægt 5.000 „moths fiðrilda“ á hverju ári til að rækta grænmeti (Moths er tegund Lepidoptera-skordýra sem teljast samt ekki eiginleg fiðrildi). Einnig snigla og þúsundir á  þúsundir ofan af ýmsum skordýrum.“

Evans skoðaði einnig hunangsframleiðslu og neyslu veganista á því en sannir veganistar borða ekki hunang vegna þess að með því þarf að stela hunangi úr býflugnabúinu og í því verli deyja flugur.

„Jú, veganistar hafa rétt fyrir sér, bý­­flugur deyja í því ferli. Vandamálið er að hunangsflugur eru mjög góðar við að frjóvga blóm nytjajurta. Þannig að gríðarlega stór hluti ræktunar byggir algjörlega á aðstoð býflugna meðal annars í ávaxtarækt.  Fjöldi ræktenda nytjajurta myndi þurfa að upplifa mun minni uppskeru vegna minni frjósemi ef býflugna nyti ekki við.“

Í grein Bændablaðsins er einnig farið yfir skoðun Evans á hnetusmjöri, súkkulaði, korni og víni en allar þessar afurðir hafa áhrif á dýraríkið.

 „Ég dreg þessa mynd ekki upp sem einhvern ógeðsþátt, heldur einfaldlega til að sýna raunveruleg áhrif og kostnað við matvælaframleiðslu. Þegar þú borðar ertu aldrei í raun vegan. Þegar menn vaxa og vinna úr mat, deyr allur matur, aðrir hlutir jafn oft og við borðum þá. Það er talað um matvælaframleiðslu af mikilli ósanngirni þegar hún er sökuð um að drepa dýr.  Allar mannlegar athafnir hafa áhrif á aðrar lifandi verur. Við drepum dýr þegar við keyrum. Við drepum dýr þegar við fljúgum, eða flytjum vörur með flugvél. Við drepum þegar við byggjum járnbrautarlestir, þegar við búum til korn, ræktum epli og mokum upp sandi. Við erum að breyta vistkerfum þegar við komum okkur upp íbúðarhúsnæði, byggjum reiðhjólaverksmiðjur og flytjum baunir með skipum. Við erum að ryðja dýrum út úr sínu eðlilega umhverfi alla daga með öllum þeim sársauka og þjáningum sem því fylgja.“ 

Veltir Evans því fyrir sér hvaða aðgerðir mannanna hafi í för með sér minnstu þjáningarnar.

„Sumir álitsgjafar telja að ræktun leiði til meiri þjáninga fyrir fleiri dýr. Skoðunin er sú að lífið sé byggt á lífi. Að við lifum með því að neyta einhvers sem hefur lifað, sem hefur aftur áhrif á annars konar lífsform langt út fyrir okkar skilning. Þú borðar plöntu og það hefur áhrif á það dýr sem ætlaði að borða plöntuna. Tölum t.d. um  hnetu af tré í náttúrunni. Vegna þess að við borðum hnetuna deyr dýr sem ætlaði að borða hnetuna. Kannski er það engispretta, margfætlan á búgarðinum, eða einhver lífvera sem gæti hafa búið í náttúrunni, ef við hefðum ekki nýtt plöntuna.“

Hefur sjálfur prófað að vera grænmetisæta

Segir Evans ræktun plantna til matar hafa mikinn eyðileggingarmátt vegna ofnýtingar á jarðvegi og dráps á heilu flokkum af dýrum til þess að viðhalda einræktun og einnig vegna notkunar á tilbúnum áburði.

„Við öll, vegan og dýraætur, erum að njóta áburðar og rotmassa sem kemur frá annaðhvort dýraúrgangi eða jarðefnaeldsneyti. Lífrænir bændur nota rotmassa m.a. sem aukaafurð frá dýraeldi, en hefðbundnir bændur nota köfnunarefnisáburð sem er framleiddur með miklu magni af jarðefnaeldsneyti. Það er varla til býli sem treystir ekki á gas og olíu til að framleiða áburðinn, reka dráttarvélarnar og senda vörurnar.“ segir Evans. 

„Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að koma að öllum hliðum þessarar umræðu. Ég hef gert tilraunir sem grænmetisæta. Ég hef hugsað mér að verða vegan. Ég hef stundað af ákafa kjúklinga- og svínarækt. Ég hef tapað peningum og þekki örvæntinguna. Ég hef líka alið upp dýr, drepið dýr, bæði villt og tamin og eldað dýr. Það sem ég hef fundið út er að dýraheimurinn er ekki einangraður frá heimi plantna og að blæbrigðarík, skynsamleg umræða um kjötneyslu ætti að snerta alla. Þar með talið jurta- og kjötætur þessa heims. Umræður þar sem fordæming, árásargirni og óþol gagnvart þeim sem eru ekki sömu skoðunar eiga ekki rétt á sér. Græningjum er velkomið að láta í ljós þá skoðun sína að það að ala dýr og borða kjöt hafi afleiðingar. Reyndar eru nokkrar af þessum afleiðingum sem einstaklingar valda dýrum og umhverfi vel þess virði að taka þær til alvarlegrar umhugsunar. Það er alveg mögulegt að sú afstaða að borða minna kjöt geti þýtt minni þjáningu, en ekki láta blekkjast með að það að vera vegan meiði ekki dýr,“ segir Matthew Evans.

Greinina er hægt að lesa í heild sinni á vef Bændablaðsins með því að smella hér.

Nýjast