Vilja niðurgreiða flug til Kína

Rætt um „Belti og braut“ frumkvæðið í Ísland og umheimur á sunnudag:

Vilja niðurgreiða flug til Kína

Frumkvæðið „Belti og braut“ er eitt helsta stefnumál Xi Jinping, leiðtoga Alþýðuveldisins Kína. Með stórtækum innviðaframkvæmdum um allan heim upp á þúsundir milljarða Bandaríkjadala, eru Kínverjar að auka umsvif og áhrif á alþjóðavísu. Þar er öllum vegum ætlað að liggja til Peking.

Að sögn Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi sem var viðmælandi Davíðs Stefánssonar í þættinum Ísland og umheimur á Hringbraut á sunnudagskvöld, lagði forseti Kína til þessa áætlun árið 2013. „Megintilgangur þess er að koma á kerfi sem gæti verið mikilvægur rammi fyrir alþjóðlega samvinnu og myndi hvetja til sameiginlegrar framþróunar. Þetta frumkvæði nær til fimm lykilsviða: Það er stefnumörkunar, innviða, viðskipta, fjármála og að tengja fólk saman. Það má segja þetta fimm tengingar á fimm lykilsviðum. Þetta stendur einnig fyrir opna, hreina og græna þróun, sem byggir á nánu samráði, sameiginlegu framlagi og ávinningi allra. Þetta var gert að frumkvæði Kína,“ segir sendiherrann.

Belti og braut felur í sér innviðaverkefni sem spanna svæðið frá Asíu til Afríku, Mið-Austurlanda og Evrópu. Ræturnar eru sagðar í hina fornu Silkileið, en framtakið skiptist í grófum dráttum í landleiðir (þ.e. „beltið“) og sjóleiðir (þ.e. „brautin“). Dæmi um innviðaframkvæmdir sem Kína kostar eða lánar til, eru vegir, brýr, járnbrautir, hafnir, flugvellir, ljósleiðarar og fleira sem tengjast í samfelld net.

Um er að ræða gríðarumfangsmikið verkefni. Til samanburðar er það 10 sinnum stærra en öll Marshallaðstoð Bandaríkjanna í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Í dag eru um 80 lönd eru þátttakendur og önnur ríki íhuga að taka þátt.

Jin Zhijian segir að árangurinn sé þegar mikill. „Reynslan segir okkur síðustu fimm ár, að árangur frumkvæðisins hefur reynst mikill, byggt á því að æ fleiri ríki hafa sýnt áhuga og vilja þátttöku í uppbyggingu Belti og Brautar.“ Hann segir Kína vera „að sjálfsögðu reiðubúið að vinna með sem flestum ríkjum sem vilja nýta sér frumkvæðið, þar á meðal Ísland og Evrópusambandsríki.“

Viðtalið við Jin Zhijian í heild sinni má nálgast hér:

Nýjast