Víkingur: hef ekki hitt son minn í rúm 2 ár: barnavernd gefst upp - „afsakið, við gerðum mistök og vertu svo blessaður“

Víkingur Kristjánsson leikari kveðst ekki hafa hitt son sinn í rúmlega tvö og hálft ár. Ástæðuna segir hann vera tálmun barnsmóður hans á umgengni eftir að hún tilkynnti grun sinn um að Víkingur hefði brotið kynferðislega gegn syni þeirra. Bæði Héraðssaksóknari og ríkissaksóknari felldu mál á hendur Víkingi niður vegna þessa og Barnavernd Reykjavíkur staðfesti verulega ágalla á meðferð málsins og bað Víking afsökunar.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar segir að undanfarið ár hafi Barnavernd reynt að koma á samstarfi við barnsmóður Víkings sem miðaði að því að koma á umgengni milli Víkings og sonar hans. Segir Víkingur að barnsmóðir hans hafi samþykkt að hefja ferli í þá átt en hafi síðan þá ekki mætt til funda með fagaðilum þar sem taka átti fyrstu skrefin. Hefur Barnavernd nú tilkynnt honum að stofnunin hafi gefist upp á þessum tilraunum.

Víkingur segir niðurstöðu Barnaverndar mikil vonbrigði en að hann sé þó ekki hissa á henni.

„Ég verð að segja að þetta kemur mér því miður ekkert á óvart. Ég hafði í raun búist við þessu. Mér finnst hins vegar afar súrt í broti að það er ekkert gert til að bæta fyrir það tjón sem Barnavernd Reykjavíkur ber ábyrgð á þegar kemur að mér og syni mínum. Það er þeirra vegna sem málið fer af stað og núna er staðan þessi. Barnavernd hefur sem sagt lagt niður vopnin, gefist upp og sagt að þetta mál sé ekki lengur á þeirra könnu. Það eina sem barnavernd hefur fram að færa er að segja: Afsakið, við gerðum mistök, og vertu svo blessaður,“ segir hann við Stundina.

Ekkert bendi til ofbeldis

Barnsmóðir Víkings hélt því fram að hann hefði snert „einkastaði“ sonar þeirra og tilkynnti Barnavernd það þann 22. mars 2017. Í skýrslu Barnaverndar vegna málsins kom fram að það væri mat Barnahúss, byggt á meðferðarviðtölum eftir að rannsókn málsins hófst, að ekkert benti til þess að drengurinn hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Barnsmóðir Víkings tilkynnti á sama tíma það sem hún kallaði gróft ofbeldi stjúpmóður drengsins í hans garð. Sálfræðingur komst að þeirri niðurstöðu að sonur þeirra hefði ekki orðið fyrir ofbeldi af neinu tagi.

Líður eins og hann hafi misst barn

Í viðtali við Stundina í júlí síðastliðnum greindi Víkingur frá því að honum liði eins og hann hefði misst barn. Frá því viðtali hefur Barnavernd komist að áðurnefndri niðurstöðu um að fullreynt sé að koma á umgengni milli feðganna fyrir tilstilli stofnunarinnar.

Eftir þessa niðurstöðu hefur Víkingur farið fram á það við sýslumann að gerður verði umgengnissamningur, sem kveði á um umgengni hans við son sinn. Í dag er tálmun ekki sakhæf og vill Víkingur að breytingar verði gerðar á því. Segir hann son sinn vilja hitta sig en að hann geti ekkert að gert þar sem barnsmóðir Víkings kjósi að tálma umgengni á milli þeirra.