Við elskum gæludýr en hlutgerum húsdýr – „gerum mikið úr tilfinningalífi einnar tegundar en lítið úr annarra“

„Við gerum mikið úr tilfinningalífi einnar tegundar – gæludýra til dæmis – en lítið úr sálarlífi annarra – svo sem sláturdýranna – og við upphefjum villt dýr, svo lengi sem þau halda sig á réttum stöðum. Við elskum gæludýr en hlutgerum húsdýr, höldum beikonhátíð í bænum og fordæmum hundaslátrun í öðrum löndum, dáumst að ljónum í dýragörðum en skjótum ísbirni sem koma inn á „okkar“ svæði. Og svo framvegis, það er af nógu að taka.“

Þetta er meðal þess sem rithöfundurinn Gunnar Theodór Eggertsson segir í viðtali við Mannlíf. Þar ræðir hann meðal annars um þær þversagnir sem leynast innan dýrasiðfræðinnar, fræðigrein sem Gunnar Theodór hefur um langt skeið kynnt sér til hlítar. Í mastersverkefni sínu frá Amsterdam-háskóla blandaði hann til að mynda hrollvekjum og dýrasiðfræði og komst eftir það í kynni við það sem kallast menningarleg dýrasiðfræði. Í doktorsnámi sínu sérhæfði Gunnar Theodór sig í menningarlegri dýrasiðfræði, með áherslu á bókmenntir.

Hann hefur ætíð talið sig vera dýravin og varð grænmetisæta árið 2003 eftir að hafa orðið vitni að mótmælum Grænfriðunga vegna hvalveiða hér á landi, mótmælum sem Gunnari Theodóri þótti ansi skrítin. Eftir þau kviknaði sömuleiðis áhugi hans á dýrasiðfræði:

„Ég hef alltaf reynt að sýna dýrum samúð, þótt það hafi lengi vel ekki náð til allra dýrategunda. Gáttin inn í dýrasiðfræðina opnaðist þegar ég fylgdist með Greenpeace-liðum mótmæla hvalveiðum og grilla svo kálfakjöt niðri við Reykjavíkurhöfn – það stuðaði mig einhvern veginn svo illa að ótal spurningar kviknuðu í kjölfarið. Sjálfur neytti ég nautakjöts, en hvers vegna þótti mér það eðlilegt, en ekki að éta hval eða kálf?“ veltir Gunnar Theodór fyrir sér.

Hann segir pælingar sem þessar oft til þess fallnar að kveikja líflegar umræður. „[É]g hef til dæmis kennt nokkur námskeið við HÍ sem taka á dýrasiðfræðinni og fundið fyrir miklum áhuga nemenda til að tala um hinar ýmsu þversagnir, þótt við séum ekkert endilega að fara að leysa þær svo glatt. Slíkar umræður tel ég afar hollar og mikilvægt að halda efninu lifandi.“

Viðtalið við Gunnar Theodór í heild sinni, þar sem hann ræðir þessi mál nánar, meðal annars í tengslum við nýútkomna bók sína, er að finna hér.