„við bara gleymdum þessu og þá byrjar kæruleysið". 21 í kvöld: halldór halldórsson og reynir traustason

Á annan tug milljarða er í Ofanflóðasjóði, en greiðsla úr honum í nauðsynlegar framkvæmdir ræðst af fjárlögum. Sjóðurinn hefur um langan tíma ekki verið nýttur sem skyldi og lítur út fyrir að fjármunirnir séu notaðir í annað. Eftir mannskæðu snjóflóðin á Súðavík og á Flateyri árið 1995 var voru lögð á gjöld á íbúa sem átti að renna í ofanflóðasjóð. Þeir snjóvarnargarðar sem þurfti að gera er enn ókláraðir svo sem í Neskaupsstað, Eskifirði, Tálknafirði, Patreksfirði, Bíldudal, Hnífsdal, Siglufirði og Seyðisfirði eða alls á átta stöðum og jafnvel fjórum til viðbótar.  

Þetta var rætt hjá Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld. Til hennar mættu Halldór Halldórsson stjórnarmaður í ofanflóðanefnd og fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Reynir Traustason, blaðamaður sem bjó til margra ára á Flateyri og flutti þaðan rétt ári fyrir hið mannskæða snjóflóð þar haustið 1995.

Rætt var um flóðavarnargarðinn í Flateyri og hve vel tókst með gerð hans en flóðið skall á einu húsi þar sem ung stúlka bjargaðist og svo í smábátahöfnina sem rústaði langfestum bátum þeirra sem gera þaðan út.

Halldór hefur gagnrýn undanfarin tvö ár að sjóðurinn sé ekki notaður til að vinna að mikilvægri uppbygginu snjóflóðavarna.

„Ég hef litið á það sem skyldu mína í ofanflóðasjóði og hef mikið síðstliðin tvö ár að gagnrýna það að við skulum vera búin að safna upp sennilega um 23 milljörðum í sjóðinn, nota sennilega nítján til tuttugu milljarða í snjóflóðavarnir til þessa en staðan hefur verið þannig á undanförnum árum að við erum að innheimta tæpa þrjá milljarða á ári af húseigendum á Íslandi en notum bara einn milljarð“, segir Halldór og bendir á að það sé Alþingi sem ákveði það í fjárlögum.

Klára átti snjóflóðavarnir um landið árið 2010

„Við erum að fara allt of hægt. 1995 eða eftir þessi hræðilegu flóð þar sem við misstum 34 einstaklinga sofandi heima hjá sér, á Súðavík og á Flateyri að þá var ákveðið að bregðast myndarlega við og það var gert og þá var farið að innheimta af húseigendum gjald sem ég held að Íslendingar hafi verið almennt mjög fúsir til að greiða“, bætir Halldór við og það hafi átt að klára varnir á landinu fyrir árið 2010.  

Með óbreyttri stöðu klárast varnargarðarnir eftir 30 ár eða meira

„Það kann vel að vera að það hafi verið óraunhæft enda var það framlegt til 2020. Núna er 2020 og við eigum allt þetta stóra verkefni eftir og miðað við hvernig Alþingi hefur ákveðið fjármagn, einn milljarð af þeim þremur sem er innheimtur þá náum við þessum ekki fyrr en 2050 eða 2060.

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að það er ekki verið að nota peningana sem eru eyrnarmerktir í þetta verkefni“.

Sama gamla og þekkta kæruleysið

Reynir flutti á sínum tíma frá Flateyri rétt ári áður en snjóflóðið féll á bæinn með miklum mannskaða. Hann talar um kæruleysi. „Ég held að þetta sé bara það sama gamla, það er að segja við hrökkvum upp af værum blundi, það fellur snjóflóð og tökum bara dæmi snjóflóð á Flateyri 1995, þetta gat verið fyrirsjáanlegt“, segir hann. „ Það komu Norðmenn árið 1970 og gerðu úttekt á staðnum, töluðu við eldra fólk og fengu upplýsingar og þeir teiknuðu ofaní ljósmynd  rautt strik og það er þar sem flóðið grandaði fólki á sínum tíma“, segir Reynir og þetta:

„En við gleymdum þessu. Þetta gleymist á nokkrum árum og það er það sama sem gerist þarna, það er að segja, Súðavík, Flateyri og tíminn líður og þá byrjar kæruleysið. Menn fara að nota þessa peninga í eitthvað allt annað eins og Halldór bendir á að það er bara hluti af þessu notað og aftur förum við að sofa af okkur slysin. Ég veit ekki hver ætlar að svara fyrir  það ef eitthvað stórt gerist á þeim stöðum sem hafa verið vanræktir“.